145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hirði ekki um það að gera einhvern mun á Samfylkingu, Framsókn og skoðanakönnunum, ég geri það ekki, en hv. þingmaður spyr mig hvað þessi ríkisstjórn er að gera og þá væntanlega í málefnum aldraðra og öryrkja. Hún hefur gert þetta. Hún hækkaði frá fyrstu dögum sínum til síðustu áramóta launagreiðslur til aldraðra og öryrkja um 6 þús. kr. eftir skatt. Hún hækkaði þær launagreiðslur um síðustu áramót um 3.496 kr. á mánuði og tók þær allar til baka í formi hækkaðs virðisaukaskatts á matvæli og ýmsu öðru sem dundi þá yfir. Núna ætlar hæstv. ríkisstjórn að svíkja aldraða og öryrkja um afturvirkar hækkanir um 11–12 þús. kr. eftir skatt frá og með 1. maí síðastliðnum að minnsta kosti og setja það inn núna þannig að af hendi ríkisstjórnarinnar verða lágmarksbætur almannatrygginga 186 þús. kr. í upphafi næsta árs. Hver getur lifað af því, virðulegi forseti? Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann hvort hann geti það því ég veit svarið. Við getum það ekki. Þess vegna segi ég, þetta er einn mesti smánarbletturinn á þessu landi hvað við gerum í þessum málaflokki og það er okkar að breyta því.

Mér er það algjörlega hulin ráðgáta eins og ég hef áður sagt, af hverju þingmaður eins og Páll Jóhann Pálsson beitir sér ekki fyrir þessu sanngjarna atriði að afturvirka hækkunin komi á þessu ári. Ég er sammála hv. þingmanni og það hefur þá eitthvað náðst fram því ég hef heyrt það sama á nokkrum framsóknarmönnum um þær kjarabætur sem samþykktar voru sem miða að 300 þús. kr. lágmarkslaunum 1. maí 2018, hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa lofað því hér. Ég hef ekki heyrt marga sjálfstæðismenn tala um það en ég veit alveg hvað ég get talað um við næstu fjárlagagerð við hv. þingmenn ef þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) verður við völd þá, sem ég vona auðvitað ekki.