145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni er gerð önnur atlaga að því að reyna að ná fram leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja með því að leggja fram þessa breytingartillögu við 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Við sem styðjum þá breytingartillögu höfum í þessari umræðu allri, við 2. umr. og nú við 3. umr., dregið fram rök fyrir því að það sé svo sannarlega réttlætanlegt og sanngjarnt að þeir hópar séu ekki skildir eftir eina ferðina enn og að þeir fái sömu kjarabætur á þessu ári og aðrir launþegar í landinu.

Mér fannst það ágætt hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að draga hér fram í krónutölum hver lægstu laun væru árið 2015 og hverjar bæturnar væru til samanburðar. Bæturnar eru 260 þús. kr. lægri en lægstu laun á ársgrundvelli 2015. Það er ekki flóknara en það. Lægstu laun fyrir þetta ár eru 2,7 millj. kr. og 260 þús. kr. vantar upp á að öryrkjar og eldri borgarar fái sömu grunnbætur. Á næstu ári munar þetta enn þá miklu, þó að stjórnarliðar séu sífellt að reyna að telja okkur trú um að svo sé ekki. Það er orðið svolítið þreytandi að fylgjast með þessari umræðu og taka þátt í henni á þeim forsendum að einhver ágreiningur sé um hvað er satt í þeim efnum, hverjar séu staðreyndir, hvernig verið er að villa um fyrir fólki í þessari umræðu. Á næsta ári verða lægstu laun 3.180 millj. kr. en það vantar 216 þús. kr. upp á að elli- og örorkulífeyrisþegar nái þeirri upphæð, þeir sem eru á lágmarksgrunnlífeyri, eins og ég skil þetta.

Umræðan hefur líka snúist um það að öryrkjar séu orðnir allt of margir á Íslandi, það sé bara orðið til vandræða. Þess vegna verði menn að stíga niður fæti og stemma stigu við þeirri fjölgun. Ég get alls ekki tekið undir orð hv. formanns fjárlaganefndar sem talar í þessa átt og raunar líka hæstv. fjármálaráðherra og fleiri innan stjórnarliðsins. Mér finnst það vera umræða á lágu plani að tala með þessum hætti.

Fram hefur komið í samantekt hjá Stefáni Ólafssyni prófessor hvernig þetta hlutfall er á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd. Vísað er til ársins 2013 og þar segir Stefán Ólafsson í samantekt sinni, með leyfi forseta:

„Ísland er árið 2013 með lægst hlutfall fólks á vinnualdri sem er á einhverjum lífeyri, eða um 10%, á meðan hinar norrænu þjóðirnar eru með 11% til 14%.

Langflestir þessara lífeyrisþega á vinnualdri eru með örorkulífeyri, en aðrir eru á endurhæfingarlífeyri, örorkustyrk eða hafa farið snemma á ellilífeyri.

Ísland er sem sagt með hlutfallslega færri örorkulífeyrisþega en hin Norðurlöndin, á heildina litið.”

Mér finnst mjög gott að fá svona samantekt þar sem þessar staðreyndir eru dregnar fram.

Svo er þessi umræða sem er svo sem ekki bara bundin við hv. formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, að eitthvað óeðlilegt sé við það að bætur aldraðra og öryrkja fari fram úr lægstu launum. Sú sem hér stendur hefur frá því hún fór að hafa eitthvert vit í kollinum barist fyrir bættum kjörum þeirra sem eru á lægstu launum og heldur því vonandi áfram það sem eftir er. En þetta er bara ekki alveg sambærilegt. Það verða alltaf einhverjir launataxtar lægstir. Þannig er það bara. En sem betur fer er það ekki alltaf sama fólkið sem er bundið við þá taxta. Það er hreyfing á því fólki. En þeir sem eru orðnir eldri borgarar og njóta ellilífeyris og þeir sem eru orðnir öryrkjar hafa alla jafna ekki möguleika á að hreyfa sig neitt til að afla aukinna tekna og eru fastir á þessum bótum það sem eftir er. Auðvitað eru til sem betur fer einhverjir öryrkjar og jafnvel ellilífeyrisþegar sem hafa einhverja möguleika á að afla sér einhverra tekna og auðvitað eru til í þessum hópum einhverjir sem eru betur staddir fjárhagslega og eiga fjármagn á reikningum og allt það. Við vitum allt um það. En sá hluti sem getur ekki og hefur ekki þá möguleika eða tekjur, á ekki eignir og lifir á þessum grunnlífeyri, hann er bara pikkfastur þar og verður það sem eftir er. Mér finnst að þarna þurfi að horfa á þetta með sanngirnissjónarmiðum. Þetta er ekki sambærilegt. Auðvitað á að halda áfram að berjast fyrir hærri lægstu töxtum, þeir eru náttúrlega bara til skammar eins og við vitum öll, þó að náðst hafi sá áfangi að hækka upp í 300 þús. kr. og á árinu 2018 verði lægstu laun komin þangað. En að vera alltaf að etja þessum hópum saman er svo ómerkilegt, finnst mér. Mér finnst það vera svo sorglegt að það fólk sem hefur meira en nóg með að reyna að halda utan um það litla sem það hefur á milli handanna, að ekki þurfi að fara að etja þeim saman í samanburði og það sé svona aðalmálið að hugsanlega séu einhverjir öryrkjar sem hafa það eitthvað betra en þeir sem eru á lægstu töxtum hverju sinni. Þá undirstrika ég að sem betur fer hafa einstaklingar möguleika á því að hækka sig upp í töxtum, njóta launaskriðs og afla sér menntunar og fá betri kjör í framhaldinu eins og við þekkjum í þeim efnum.

En það er líka rétt að mikið áhyggjuefni er fjöldi ungra öryrkja. Ég hef áhyggjur af því og það hafa fleiri. Við eigum að gera allt sem við getum til að styðja það unga fólk sem verður öryrkjar, hvort sem það er vegna geðrænna sjúkdóma eða líkamlegs tjóns eða hvað það er. Hluti þessa hóps hefur möguleika á að fá stuðning og að geta komist jafnvel aftur út á vinnumarkaðinn. Sumir hafa ekki nokkra möguleika til þess. Þetta er auðvitað mjög ólíkur hópur innbyrðis. Það er ekki eitthvert samasemmerki þar á milli. Það að búið sé að skella í lás fyrir nemendur 25 ára og eldri í bóknámi í framhaldsskólum kemur líka illa við þá hópa. Ungt fólk sem einhverra hluta vegna hefur fallið út úr námi og hefur svo tækifæri til þess að öllu jöfnu að fara aftur og ljúka námi sínu og afla sér tækifæra í framhaldinu, því er gert miklu erfiðara fyrir með því að loka framhaldsskólunum fyrir 25 ára og eldri. Svo að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar beinast svona með neikvæðum formerkjum gagnvart þeim hópi, finnst mér. Það þarf að vera aukinn almennur stuðningur við þennan hóp sem hefur möguleika á atvinnuþátttöku. Það þarf að vera jákvæðara viðhorf, bæði innan atvinnulífsins og af hálfu stjórnvalda. Það þarf líka að vera fjárhagslegur ávinningur öryrkja að fara aftur út í atvinnulífið og vera þátttakendur, þó það sé ekki nema að hluta til, með því þá að ríkisvaldið dragi úr skerðingum örorkulífeyris vegna eigin atvinnutekna. Sá sveigjanleiki sem þarf að vera á vinnustöðum fyrir fólk með skerta vinnugetu þarf líka að vera til staðar. Þannig er það í fæstum tilfellum í dag, því miður, þó að undantekningar séu á því.

Við í stjórnarandstöðunni höfum, þótt ég segi sjálf frá, verið óþreytandi undanfarnar vikur að tala fyrir þeim sjónarmiðum, að það sé rétt, eðlilegt og sjálfsagt að eldri borgarar og öryrkjar fái að lágmarki þessar afturvirku hækkanir til samræmis við aðra launþega í landinu. Við höfum talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda en sjáum auðvitað ekki eftir einni mínútu í þá umræðu. Það er líka svo gott að finna að í þjóðfélaginu eru sömu sjónarmið uppi og eru hér á þingi hjá stjórnarandstöðunni. Yfir 90% landsmanna vilja að kjör lífeyrisþega verði með sama hætti og annarra launþega og að þeir fái afturvirkar hækkanir frá 1. maí á þessu ári. Þess vegna er alveg furðulegt að ríkisstjórnin ákveði að setja undir sig hausinn og gera ekkert með það, að vilji landsmanna og stjórnarandstöðunnar er svona. Og auðvitað eru aldraðir og öryrkjar búnir að sanna og sýna fram á í málflutningi sínum að þeir eiga svo sannarlega skilið að fá þessa leiðréttingu. Þegar menn eru að hrósa sér af 10 þús. kr. eftir skatta, sem kjör þessara hópa hafi batnað um á síðustu þrem árum, er það nú létt í vasa. Ef menn mundu fá þessar hækkanir aftur í tímann væri verið að tala um 80 þús. kr. eftir skatta, eins og ég skil það. Fólk munar um það.

Í þessum útgjaldamánuði flestra þar sem fólk reynir að gleðja sitt fólk og gera sér einhvern dagamun um jólahátíðina þá er það sorglegt í stóra samhenginu þegar verið er að lækka skatta á þá tekjuháu eins og kom hér fram í dag í frumvarpinu um forsendur fjárlaga. Enn eina ferðina er haldið áfram að lækka skatta og það þýðir ekkert annað en það að menn eru að forgangsraða í þágu hinna efnameiri, auka misskiptingu í landinu á kostnað þeirra sem minna mega sín, hvort sem um er að ræða hópa aldraðra eða öryrkja. Þetta er nú bara, eins og sagt hefur verið, dólgahægristefnan sem keyrir hér um þverbak og kemur svona fram. Við því verður að bregðast og reyna að koma þessum stjórnvöldum frá sem fyrst áður en þau hafa eyðilagt meira í velferðarkerfinu.