145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Maður á auðvitað aldrei að gefa upp vonina. Lengi er von á einum milljarði, eins og sagt er. Hann er þá kominn í höfn. Hann hefði nú ekki komið hefði ekki verið talað fyrir því úr þessum ræðustól af stjórnarandstöðunni. Það er bara gott að heyra að menn hafa þá samvisku til að reyna að gera betur í þeim efnum. Það munar um þetta. Auðvitað verður maður þá bara að vera bjartsýnn á að nú þegar þessi tillaga liggur fyrir í fjáraukanum, um að koma til móts við aldraða og öryrkja, að menn skilji þá þann hóp ekki eftir eina ferðina enn og horfi á þær staðreyndir sem liggja fyrir, að það er ekki verið að bæta öldruðum og öryrkjum sambærilega og öðrum hópum þó að menn hafi talað þannig úr þessum ræðustól af stjórnarmeirihlutanum. Þessi 9,7% gera það ekki, sem koma til hækkunar 1. janúar á næsta ári. Meðaltal þeirra hækkana sem hafa komið hjá launþegum á þessu ári er 14,1%, hef ég séð einhvers staðar. En það er bara búið að reikna þetta út fram og til baka og það skortir mikið upp á að þessir hópar séu að fá sambærilegt, hvað sem hver segir. Ég bara trúi því ekki að menn ætli að láta einhverjar talnaflækjur flækja þetta endalaust fyrir sér þegar þetta er klárt reiknisdæmi. Við höfum nú stærðfræðing hér í þingsalnum, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og ég treysti hennar útreikningum. Það vantar upp á að kjör aldraðra og öryrkja séu sambærileg lægstu launum og það munar um 260 þús. kr. á þessu ári.