145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nú er þetta mál, frumvarp til laga um opinber fjármál, komið til 3. umr. Ég ætla að þakka fjárlaganefnd og þingmönnum sem í nefndinni sitja, starfsmönnum nefndarinnar og öllum þeim gestum sem komið hafa fyrir fjárlaganefnd síðastliðið tvö og hálft ár sem við höfum verið að vinna þetta frumvarp fyrir bæði aðstoð, hjálp og samveru. Það má segja að það hafi verið ákveðin tímamót og áskorun sem fólst í því að taka þetta verkefni að sér því að það eru 20 ár síðan fjárreiðulögin voru sett sem unnið er nú eftir. Þá var það fjölskipuð nefnd sem skipuð var bæði af viðskiptanefnd þingsins og fjárlaganefnd en nú fékk fjárlaganefnd það verkefni. Það er búið að vera mjög ánægjulegt. Frumvarpið hefur tekið miklum breytingum í vinnu nefndarinnar frá því að það var lagt fram fyrst. Nú er það komið hingað og er afar ánægjulegt hversu mikil samstaða er um málið því að eins og ég sagði hér einhvern tímann er þetta einhvers konar stjórnarskrá opinberra fjármála. Þetta er ramminn utan um það hvernig opinber fjármál verða til framtíðar og hér eru mörg nýmæli á ferðinni. Segja má að allir þingmenn sem í fjárlaganefnd sitja séu sammála þessu máli þrátt fyrir einstaka undantekningar varðandi ákveðna áhersluþætti. Í heildina séð eru fulltrúar allra flokka á þessu máli.

Aðalbreytingin, sem ég tel að sé til bóta, er sú að nú verður markaður rammi og skipuð framtíðarsýn til fjögurra ára og gerð áætlun til fjögurra ára um rekstur ríkisstofnana. Þá sjá stofnanirnar sjálfar úr hverju þær hafa að spila til lengri tíma, því að eins og birst hefur í fjárlagaumræðunni núna og ég hef séð og fundið fyrir er það alltaf svolítilli óvissu háð hvað stofnanirnar telja sig eiga inni hjá ríkinu. Upphefst mikið reiptog á haustin þegar fjárlögin koma fram þegar stofnanir telja sig eiga meira inni hjá ríkinu. En vonandi verður sá galli sem einkennir núverandi fjárlagagerð leystur með þessu frumvarpi.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna því að liðið er að kveldi. Aftur vil ég að þakka fulltrúum allra flokka fyrir einstaklega góð störf í fjárlaganefnd og er rétt að geta þess að einn þingflokkur hefur áheyrnarfulltrúa í fjárlaganefnd. Það er þingflokkur Pírata og komu píratar aktíft að þessari vinnu og lögðu til tillögur sem við tókum tillit til. Hver einasti þingflokkur hefur því sínar áherslur í þessu frumvarpi. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni ræddum við okkur til niðurstöðu og þegar samkomulag er um svona mál þurfa allir að gefa eitthvað eftir. Það er ánægjulegt að vinnan var með þeim hætti sem hún var, laus við pólitík og einungis unnin á faglegum forsendum. Hv. fjárlaganefnd fór til Svíþjóðar til að kynna sér málið og það gerði að vísu líka hv. fjárlaganefnd frá síðasta kjörtímabili og er rétt að vekja athygli á því að vinnan við frumvarpið hófst á síðasta kjörtímabili, sem sýnir að málið er langt yfir pólitík hafið. Hafa þá fjórir flokkar komið að málinu sem setið hafa í ríkisstjórn auk nýju flokkanna, Bjartrar framtíðar og Pírata.

Ég fagna þessu frumvarpi en ætla ekki að lengja umræðuna og vonast til þess að málið fái víðtækan stuðning á morgun þegar greidd verða atkvæði um málið.