145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við ríkisskattstjóra og tollstjóra. Frumvarpið inniheldur 30 greinar og leggur til breytingar á alls níu lögum en veigamestu breytingarnar eru á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Meðal efnis frumvarpsins má telja að skattskil og upplýsingar varðandi skattamál verði alfarið rafræn. Skattkort verða þannig algerlega rafræn. Söluhagnaður sem getur myndast þegar fólk flytur úr stærra húsnæði í minna húsnæði verður ekki lengur skattlagður. Álagningardagur skatta einstaklinga verður í lok júní í staðinn fyrir lok júlí en kærufrestur verður lengdur úr 30 dögum í 60. Gjafir til samtaka sem starfa að almannaheillum verða undanþegnar erfðafjárskatti.

Frumvarpið kemur einnig til móts við rökstutt álit og athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA sem snúa að tilteknum ákvæðum laga um tekjuskatt og ákvæðum laga um tryggingagjald. Jafnframt lýtur frumvarpið að breytingartillögum sem til eru komnar vegna alþjóðlegra skuldbindinga um upplýsingaskipti á sviði skattamála. Verði frumvarpið að lögum eru fjárhagsleg áhrif á afkomu ríkissjóðs talin óveruleg samkvæmt umsögn skrifstofu opinberra fjármála.

Hér við 2. umr. mun ég leitast við að upplýsa um vinnu efnahags- og viðskiptanefndar í málinu og þær breytingar sem hún leggur til. Álit nefndarinnar og breytingartillögur er að finna á þskj. 634.

Nefndinni bárust ellefu erindi. Hún fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, ríkisskattstjóra, Kauphöll Íslands og Samtökum verslunar og þjónustu. Fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar vil ég þakka gestum og umsagnaraðilum fyrir þeirra framlag. Í athugasemdum sem bárust nefndinni og á fundum um málið komu fram ábendingar sem nefndin taldi rétt að taka til nánari skoðunar og leggur hún til nokkrar breytingar til að koma til móts við þær.

Nefndin afgreiddi nefndarálit sitt þann 14. desember en þess ber að geta að 17. desember var haldinn aukafundur í nefndinni til að fá kynningu ráðuneytis á breytingu við 29. gr. frumvarpsins. Ákveðið var að fella breytinguna inn í nefndarálitið og hefur þskj. 634 verið prentað upp því til samræmis.

Nú verður vikið að helstu breytingum sem nefndin leggur til. Fyrst ber að nefna rafræn framtalsskil. Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að ríkisskattstjóra verði heimilt að ákveða að framtalsskil einstaklinga utan atvinnurekstrar skuli almennt vera rafræn og að málsmeðferð verði rafræn eftir því sem við á. Í umsögn sem barst nefndinni kemur fram ábending um að æskilegt sé að umorða ákvæðið þannig að við það bætist í dæmaskyni tilgreining á þeim ákvæðum tekjuskattslaga þar sem einkum kunni að reyna á að sending rafrænna ákvarðana sé efnislega og formlega bindandi. Nefndin fellst á þessi sjónarmið og gerir breytingartillögu þess efnis.

Í 18. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. mgr. 2. gr. laga, nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum. Breytingin er þess efnis að lagt er til að verðbréfafyrirtækjum, líkt og bönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum, verði bætt við upptalningu á þeim aðilum sem undanþegnir eru staðgreiðslu til skatts af fjármagnstekjum. Umsagnaraðili sem kom fyrir nefndina taldi eðlilegt að undanþágan næði einnig til verðbréfamiðstöðva sem starfa samkvæmt lögum nr. 131/1997, um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Nefndin telur rétt að bregðast við þessari ábendingu til að einfalda skattskil, enda felur breytingin ekki í sér áhrif á tekjur ríkissjóðs. Eftir sem áður er fjármálafyrirtækjum skylt að skila fjármagnstekjuskatti sem innheimtur er af viðskiptavinum.

Í 3. mgr. 122. gr. tollalaga er tollstjóra heimilað að fresta gjalddaga aðflutningsgjalda fram að uppgjöri virðisaukaskatts sé aðili að jafnaði með lægri útskatt en innskatt. Þessi heimild getur því nýst aðilum sem stunda útflutning sem flytja inn aðföng til nota í starfsemi sinni. Hið sama kann einnig að eiga við þegar útflytjendur flytja inn vöru til nota við uppbyggingu varanlegra rekstrarfjármuna sem notaðir verða í starfseminni en þegar svo háttar til að útflytjendur ráðast í uppbyggingu en fela öðrum að annast uppbygginguna á grundvelli verksamninga tapast þessi möguleiki, enda eru það að jafnaði viðsemjendur þeirra, aðalverktakar, sem flytja vörurnar inn og greiða af þeim aðflutningsgjöld. Til að takmarka fjármagnskostnað útflytjenda sem standa í uppbyggingu leggur nefndin til að tollstjóra verði heimilað að veita aðalverktökum sem gert hafa verksamning um uppbyggingu leggur nefndin til að tollstjóra verði heimilað að veita aðalverktökum sem gert hafa verksamning við uppbyggingu fyrir aðila sem nýtur gjaldfrests samkvæmt 3. mgr. 122. gr., sambærilegan gjaldfrest að uppfylltum þeim tilteknu skilyrðum sem fram koma í tillögu nefndarinnar. Tillaga nefndarinnar miðast við að ríkissjóður verði ekki af skatttekjum vegna breytingar heimildarinnar.

Þá vík ég að breytingarákvæði vegna tollvörugeymslna. Verði 29. gr. frumvarpsins að lögum mun nokkrum fyrirtækjum sem ekki starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu verða áfram heimilt að geyma bæði tollafgreidda og ótollafgreidda vöru í sama rými í tollvörugeymslu. Að mati nefndarinnar er hætta á að ákvæði 29. gr. hafi óæskilegan aðstöðumun í för með sér. Sú staða kann að koma upp að fyrirtæki sem munu áfram njóta heimildar til að geyma tollafgreidda og ótollafgreidda vöru í sama rými í tollvörugeymslu á grundvelli frumvarpsgreinar verði um ókomna tíð í betri stöðu en þau fyrirtæki sem ekki fá slíka heimild. Af þessum ástæðum leggur nefndin til þá breytingu á 29. gr. að þeim aðilum sem við gildistöku 27. gr. verður áfram heimil geymsla tollafgreiddrar og ótollafgreiddrar vöru í sama rými í tollvörugeymslu á grundvelli 29. gr., verði slík geymsla aðeins heimil í tíu ár eftir gildistökuna. Það er óháð því hvort þeir starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu, svo fremi sem þeir teljist uppfylla skilyrði annarra ákvæða 94. gr. laganna á þeim tíma. Á tíu árum ættu þeir aðilar sem munu byggja rétt á 29. gr. að njóta nægilegs svigrúms til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að verða til þess að bregðast við samþykkt 27. gr.

Nefndin áréttar að þrátt fyrir samþykkt 27. gr., samanber 29. gr. frumvarpsins, mun fyrirtækjum áfram verða mögulegt að sækja um leyfi til að reka tollvörugeymslu óháð tilgangi starfa sinna en án heimildar til að hafa tollafgreiddar og ótollafgreiddar vörur á sama svæði í geymslunni.

Að lokum hefur nefndin tekið til skoðunar breytingar á frumvarpinu er varða VIRK – Starfsendurhæfingarsjóð um að framlög til VIRK verði lækkuð tímabundið árin 2016 og 2017 þannig að þau verði 0,10% af heildarlaunum í stað 0,13%. Í mars 2015 var gert samkomulag milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra annars vegar og VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar um framlög ríkisins til starfsendurhæfingarsjóða. Þannig var gert ráð fyrir að á árinu 2015 yrði beint framlag úr ríkissjóði um 200 millj. kr., á árinu 2016 yrði framlagið 650 millj. kr. en á árinu 2017 yrði framlagið úr ríkissjóði fjárhæð sem næmi 0,06% af gjaldstofni tryggingagjalds. Eftir sem áður var áfram gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum.

Fjöldi einstaklinga í þjónustu VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs á árinu 2015 verður minni en áætlanir gerðu ráð fyrir og jafnframt gerir áætlun hans fyrir árið 2016 ekki ráð fyrir fjölgun einstaklinga í þjónustu þó að áfram sé gert ráð fyrir að hlutfallslega fleiri einstaklingar sem hafa verið lengi frá vinnumarkaði muni leita til VIRK. Hjá VIRK hefur enn fremur átt sér stað mikil endurskoðun vinnuferla sem miðar að því að gera þjónustuna sífellt markvissari, hagkvæmari og árangursríkari.

Það er því ljóst að fjármunir sem nema 0,13% framlagi frá atvinnulífi og lífeyrissjóðum, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, ásamt 650 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði, eru meiri fjármunir en VIRK þarf í reksturinn á árinu 2016. Varasjóður VIRK hefur auk þess náð þeirri stærðargráðu sem mælt er með í tryggingafræðilegri greiningu.

Stjórn VIRK hefur því óskað eftir að framlög til VIRK verði lækkuð tímabundið árin 2016 og 2017 þannig að þau verði 0,10% af heildarlaunum í stað 0,13%. Þá verður ekki þörf fyrir að fullnýta framlagið úr ríkissjóði á árinu 2016, heldur verða nýttar 500 millj. kr. í stað 650 millj. kr. Á árinu 2017 er gert ráð fyrir að framlag ríkisins muni nema 0,05% af gjaldstofni tryggingagjalds eins og hann er áætlaður í fjárlögum fyrir árið 2017 í stað 0,06%. Lagt er til að þessi breyting verði tímabundin en mikilvægt er að endurskoða umfang starfseminnar áður en tekin er ákvörðun um breytingar til framtíðar enda liggur fyrir að starfsemi VIRK er enn í mótun. Er því gert ráð fyrir að þessar breytingar sem hér eru lagðar til komi fram í bráðabirgðaákvæði við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012, og lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Gert er ráð fyrir því að gerður verði viðauki við samkomulagið frá því í mars 2015 þar sem fram komi þær breytingar sem hér eru lagðar til. Nefndin tekur undir þessar óskir stjórnar VIRK og leggur til breytingu þess efnis.

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fylgja álitinu. Undir álitið rita þann 14. desember Frosti Sigurjónsson formaður, Guðmundur Steingrímsson, Valgerður Bjarnadóttir, með fyrirvara, Willum Þór Þórsson, Katrín Jakobsdóttir, með fyrirvara, og Sigríður Á. Andersen.