145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá formanni nefndarinnar áðan skrifa ég undir nefndarálitið með fyrirvara. Sá fyrirvari snýr að 1. gr. frumvarpsins sem felur í sér að söluhagnaður af eignum sem fólk hefur átt skemur en í tvö ár er skattfrjáls nema þegar eignin er stærri en 600 rúmmetrar fyrir einstakling eða 1.200 rúmmetrar fyrir hjón og skal þá skattleggja söluhagnaðinn í hlutfalli við stærð húsnæðis.

Ég hef efasemdir um að þörf sé á því að afnema ákvæði um þessa skerðingu. Þess vegna munum við ekki greiða atkvæði með því, en ég er svo sem ekki á móti því. En það er það sem fyrirvari minn varðar.

Síðan vil ég ítreka að breytingartillagan um bráðabirgðaákvæði sem lögð er fram varðandi VIRK, sem er starfsendurhæfingarsjóður, um að lækka gjaldið úr 0,13% í 0,10, að það ákvæði tekur einungis til tveggja ára. Ég vil að það sé alveg ljóst af minni hálfu. Það er auðvitað ljóst af textanum, en ég vil bara ítreka það.