145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:35]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp, sem er nú kallaður betri og einfaldari bandormurinn, hefur eina mjög einfalda grein inni sem á sér sennilega upphaf í þingmáli sem ég flutti á þskj. 34, mál nr. 34 og fjallar um breytingu á lögum um tekjuskatt, þ.e. um svokallaða rúmmálsreglu. Eftir að málið fór í gegnum ráðuneytið var nú aðeins snúið upp á hana og mér virðist af því sem hér hefur verið sagt af tveimur hv. þingmönnum sem þeir skilji ekki um hvað málið snýst.

Það er einnig dálítið dapurlegt að í umfjöllun nefndarinnar var þetta atriði varla nefnt á nafn. Ríkisskattstjóri skilaði umsögn um frumvarpið og þar var það ekki nefnt en kallað var eftir upplýsingum frá ríkisskattstjóra varðandi svokallaða rúmmálsreglu sem ég ætla að gera hér að umtalsefni. Í skeyti sem barst frá ríkisskattstjóra kom í ljós, ég ætla samt að leyfa mér að lesa efni þess, með leyfi forseta, sem þar fór á milli þar sem sá sem hér stendur spyr ríkisskattstjóra:

„1. Hve oft er við álagningu lagður á tekjuskattur á söluhagnað einstaklinga af íbúðarhúsnæði samkvæmt rúmmálsreglu í tekjuskattslögum?

Er eitthvert munstur í skattlagningunni, þ.e. hvort fullorðnir einstaklingar sem misst hafa maka sinn eru greiðendur samkvæmt þessari reglu? Ef upphæðir eru fáanlegar þá er upplýsandi að fá það.“

Þetta eru upplýsingar sem ég legg fyrir ríkisskattstjóra og ríkisskattstjóri svarar:

„1. Þessar upplýsingar eru ekki vélteknar nema að hluta og því ekki unnt að sjá með óyggjandi hætti umfang þeirra. Það er þó ljóst að afar fá tilvik eru um skattlagningu af þessum toga, kannski örfá dæmi á hverju ári. Tilvikin eru það fá að ekki er heldur unnt að slá föstu hvernig tilvik þetta eru en e.t.v. hefur borið meira á fullorðnu fólki sem er í stærri eignum.“

Síðan er engin umfjöllun um rúmmálsregluna og hennar sér heldur ekki stað í nefndarálitinu. Ég tek það fram, virðulegi forseti að ég er ekki á þessu nefndaráliti þó að ég sé í efnahags- og viðskiptanefnd því að vinnubrögðin varðandi rúmmálsregluna í nefndinni voru ekki til neinnar fyrirmyndar og ég er mjög ósáttur við þau.

Hér segir að reglan eigi sér upphaf í skattalögum frá 1972, sem er rétt, en það gleymist í þessu máli að rúmmálsreglunni fylgdi annar hluti. Hann er sá að það var verðbreytingastuðull þar sem eignin var reiknuð upp miðað við verðlagsbreytingar frá kaupdegi til söludags þannig að söluhagnaðurinn varð náttúrlega allt annar. Hver er söluhagnaður af fasteign? Söluhagnaður af fasteign er í 90% tilfella einungis hagnaður miðað við verðlagsbreytingar og verð. Má segja að söluhagnaðurinn sé verðbætur á fasteignina sem er til kominn vegna verðrýrnunar íslenskrar krónu.

Það er dálítið erfitt að fjalla um verðbætur á þessu landi vegna þess að fáir skilja það hugtak. En kannski skilja það fleiri ef enska þýðingin er notuð og hér ætla ég að leyfa mér, með leyfi forseta, að vísa til verðbóta á ensku sem er kallað „inflation adjustment“, aðlögun að verðbólgu. Söluhagnaður fasteigna, sem er hér einungis hækkun vegna verðbreytinga, breytinga á almennu verðlagi, er því allt í einu orðin tekjulind fyrir ríkissjóð. Slæm efnahagsstjórn er tekjulind fyrir ríkissjóð. Það er náttúrlega algerlega óþolandi eignaupptaka. Ég hef lagt í það að snúa ofan af þessu og reyna að snúa ofan af fleiri dæmum í skattalögum þar sem verið er að skattleggja verðrýrnun íslenskrar krónu.

Þegar verðbólgureiknisskil voru afnumin um síðustu aldamót sat þetta eftir. Mér skilst að ótti manna sé sá að þeir sem eiga miklar eignir — ég veit ekki hve það eru miklar eignir, þær eru þá umfram þessa rúmmetra, 600 fyrir einstakling, 1.200 fyrir hjón — séu mjög hættulegir og það þurfi að ná til þeirra.

Hér ætla ég að leyfa mér að lesa skeyti sem kom frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, með leyfi forseta. Ég hélt að sá sem ég hefði helst grunað að skrifaði svona skeyti væri hættur.

„Að gefnu tilefni vil ég gjarnan koma því á framfæri að varhugavert getur verið að afnema alfarið rúmmálsregluna svokölluðu. Þeir aðilar sem hafa stundað fjárfestingar með kaup og sölu fasteigna gætu þá fallið undir undanþáguna en það gæti skapað ójafnræði gagnvart þeim t.d. sem fjárfestu í hlutabréfum eða eiga sparifé á innlánsreikningum. Þeir aðilar greiða fjármagnstekjuskatt en fjárfestarnir gætu þá verið undanþegnir.“

Þarna örlar ekki á skilningi á hugtakinu „verðbætur“ og þar að auki er þessi draugur, fjármagnstekjuskattur, enn þá þarna inni. Fjármagnstekjuskattur er samkvæmt mínum skilningi skattur á skuldir, þannig að það er rökleysa sem er í skattalögum allar götur frá 1996, en látum það nú vera. Það er því hættulegt að eiga miklar eignir. Þeir sem eiga miklar eignir hafa af þeim leigutekjur og greiða skatta af þeim og í morgun var hér verið að lækka það skatthlutfall. Til hvers? Jú, til þess að efla leigumarkað. Hugsunin í þessu bréfi er þvert á það, þ.e. að koma í veg fyrir þá ógæfu að hér verði til leigumarkaður af hálfu einstaklinga sem vilja fremur eiga sparifé sitt bundið í fasteignum en á bankareikningum, þar sem menn hafa nú á móti gengið hart fram í því að afnema hvers kyns ábyrgðir og skapa leiðir til að svipta fólk eignum þar.

Þessi umfjöllun öll ber með sér, eins og mér hefur gjarnan fundist þegar um fjármál einstaklinga er að ræða, að lítil virðing er borin fyrir verðmætum einstaklinga. Það er heimilt að ganga á þetta nánast eins og frjáls gæði og það er óþolandi. Ég mun óska eftir því að þessi grein verði afturkölluð og að málið verði tekið til umfjöllunar í heilu lagi á grundvelli þess frumvarps sem ég hef flutt þannig að fram fari efnisleg vinna sem nefndin hafði ekki fyrir að vinna í þessari umfjöllun. Það sem mælir þar gegn er í fyrsta lagi að nefndin rannsakaði ekki þetta mál. Það eru rökvillur í því og ég held að skilningur þeirra hv. þingmanna Valgerðar Bjarnadóttur og Katrínar Jakobsdóttur á þessu sé eitthvað brenglaður og kannski er ekki hægt að laga þá brenglun á þeirri hlið stjórnmála. En hvað um það, ég ætla alla vega að laga þennan skilning í mínum flokki ef mér heppnast að draga þetta til baka.

En að svo mæltu held ég að ég hafi ekki meira um þetta mál að segja. Frumvarpið felur í sér ýmsar lagfæringar að öðru leyti og hef ég ekki mikið um það að segja og vona að þjóðin fari að hafa eðlilegan skilning á hugtakinu verðbætur.