145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alrangt. Almenna reglan er sú að söluhagnaður af eignum er skattskyldur. Undanþágan frá því er sú að húsnæði til eigin nota er ekki skattskylt hafi maður átt það í tvö ár eða lengri tíma. Þetta er undantekning frá þeirri almennu reglu að söluhagnaður eigna er skattskyldur. Ef maður gefur einhverjum aðilum, t.d. einstaklingi, allt aðra skattalega aðstöðu en fyrirtækjum þá er alveg ljóst að það hefur áhrif, það myndar hvata. Mjög mikið af þeim hagnaði sem verður til í útleigustarfsemi er oft vegna hækkunar á eignaverði og þetta mundi gerbreyta samkeppnisaðstöðu á milli þeirra sem gera þetta sem einstaklingar og þeirra sem gera þetta sem fyrirtæki. Það var það sem nefndin vildi rannsaka frekar. Það var ekki þannig að nefndin væri alfarið á móti því að skoða málið. Hún taldi bara málið ekki fullrannsakað eins og fram kom á fundi nefndarinnar og vildi láta duga að gera þá breytingu sem lögð var til af ráðuneytinu.

Það er alveg sjálfsagt að skoða þetta mál nánar og kanna allar afleiðingar, fá gesti og kanna hverjar afleiðingarnar eru. Það hafði ekki gefist ráðrúm til þess og þegar svona skammur tími er til stefnu þá er gætilegra að slíkar breytingar komi ekki inn milli umræðna heldur séu þær lagðar fram sem frumvarp og ég hvet hv. þingmann til að gera það.