145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég á ekki sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en hef örlítið fylgst með þessu máli. Ég tel að ég muni ekki ná að sætta þau ólíku sjónarmið sem fram hafa komið hér af hálfu hv. formanns nefndarinnar, Frosta Sigurjónssonar, og hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar. Þar er greinilega einhver samræða sem á eftir að eiga sér stað áður en þeir ná sameiginlegum skilningi á þessu viðfangsefni.

Ég vildi hins vegar aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls en hún byggir í grundvallaratriðum á sömu hugsun og fram kemur, að ég tel, í því frumvarpi sem Vilhjálmur Bjarnason hefur flutt um þetta efni sem felur í sér afnám rúmmálsreglunnar, en að mínu mati er þarna um afar óeðlilega leið til skattlagningar að ræða.

Eins og fram hefur komið, þó að gögn ríkisskattstjóra séu greinilega ófullkomin um það efni, þá er ljóst að þessi regla hefur afar sjaldan leitt til skattlagningar, en hún er engu að síður sérkennileg og ég tel að hún þurfi endurskoðunar við umfram það sem fram kemur í tillögum efnahags- og viðskiptanefndar nú. Ég get hins vegar fallist á þá leið sem frumvarpið gengur út á, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. að skattleysið nái þá til sölu eigna sem nýttar hafa verið til eigin búsetu. Ég tel að það sé betra að sú breyting nái fram að ganga en að núverandi reglur verði áfram í gildi. Ég held að það sé til framfara en ég er engu að síður þeirrar skoðunar að það þurfi að skoða þetta í víðara samhengi og fylgja málinu eftir.

Ég mun því greiða atkvæði með þeirri tillögu sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til í þessu máli, sem felur í sér skattleysi þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði sem menn nýta í eigin þágu, en ég tel hins vegar að full ástæða sé til þess, á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur sett fram, að skoða þetta í víðara samhengi þannig að hægt sé að útfæra skattleysið frekar.

Ég tel að skattlagning af þessu tagi sé almennt talað óæskileg og hugmyndaheimurinn sem hún byggir á fellur mér ekki í geð, þegar menn eru að velta fyrir sér skattlagningu sem tengist með engum hætti tekjuauka eða slíku heldur er í raun bara það að ríkið er að skammta sér sneið af eignum manna. Ég er á sama hátt í grundvallaratriðum andvígur því að eignir séu notaðar sem andlag skattlagningar. En ég held að við getum fallist á, eða alla vega ég fyrir mitt leyti get það, þá leið sem meiri hluti nefndarinnar leggur til í þessu sambandi, ég tel að það sé framför frá því sem nú er í gildi. Ég held hins vegar að full ástæða sé til að skoða þetta á víðari grundvelli, og á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur reifað.