145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

sala fasteigna og skipa.

376. mál
[19:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er eiginlega nýlunda að ég skuli ekki vera að fullu og öllu sammála hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni. Hann er yfirleitt þeirrar náttúru að geta horft á málin svolítið á ská og oft í gegnum önnur gleraugu en aðrir. Ég hef lært það af reynslunni að leggja alltaf við hlustir þegar hv. þingmaður kemur stundum með sínar stórkarlalegu yfirlýsingar, yfirleitt er einhver kjarni í þeim og oft mjög mikill.

Að þessu sinni er ég sammála honum um að hugsanlega hafi nefndinni orðið á yfirsjón í fyrra varðandi sumar greinarnar. Hv. þingmaður lýsti því yfir að hann teldi til dæmis að sú grein frumvarpsins sem tengdist gagnsæi og varðaði vensl þeirra sem að fasteignaviðskiptum koma við neytendur væri til bóta. Ég er sammála honum um það. Ég er einnig sammála honum hvað varðar þá breytingu sem gerð er og fjallar um heimild ráðherra til að ákveða einingafjölda námsins.

Að öðru leyti er ég ekki sammála hv. þingmanni. Mér finnst rétt að það komi skýrt fram, af því að ég tók þátt í undirbúningi þessa máls, að málið var vitaskuld borið undir ráðuneytið. Ég var á fundi þar sem ráðuneytið lýsti yfir að þetta frumvarp væri framför. En það sem skiptir þó kannski öllu máli varðandi fagaðila er sú staðreynd að eftirlitsnefnd fasteignasala kom til fundar við nefndina og fór ítarlega yfir frumvarpið. Það var nú enginn annar en okkar ágæti Þórður Bogason, formaður þeirrar nefndar og fyrrum ráðsnjall starfsmaður þingsins og mikil lagabrekka, sem sagði að frumvarpið væri framför og skipti máli. Hann lýsti því með hvaða hætti eftirlitsnefndin hefði séð sig nauðbeygða til að taka í taumana eftir að hafa séð breytingar á lögunum og síðan með hvaða hætti ráðuneytið hygðist bregðast við því með reglugerð. Það hefði leitt til þeirrar stöðu sem upp kom og hefur verið rædd hér á Alþingi áður. Þessi staða birtist í að fjöldi manna, menn hafa nefnt milli 100 og 200 manns, fjölmiðlar hafa nefnt allt upp í 400 manns, sem ekki hafa löggildingu en starfa á fasteignasölu töldu störf sín í uppnámi. Og sannarlega var það svo að eftirlitsnefndin fór á nokkra staði og það leiddi til þess að menn misstu umsvifalaust störf sín. Þannig var algerlega klárt að á einhvern hátt þurfti að skoða þetta mál upp á nýtt og það gerði Alþingi.

Ég tel að Alþingi hafi sýnt viðbragðsflýti og hafi skoðað þetta mjög vel. Hitt er svo annað mál að vel kann að vera eins og gildir alltaf um löggjöf að skoða megi mál betur, alveg eins og það mál sem menn ræddu hér á undan þessu. Ég heyrði ekki betur en þar væri fullur vilji til að skoða sjónarmið og hugsanlega breyta þeim lögum frekar.

Það sama gildir hér. Við fundum það alveg glöggt við yfirferð í nefndinni að ýmsir höfðu skoðanir á þessum málum og töldu að það þyrfti að breyta ýmsum öðrum atriðum og ég er sannfærður um, hvort heldur það verður hlutskipti efnahags- og viðskiptanefndar eða ráðuneytisins, að það verður gert. En þetta frumvarp tekur einungis á örfáum þáttum sem eiga að tryggja að á meðan þessi breyting er að ganga í gegn missi menn ekki vinnuna.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason taldi að þetta væri í besta falli gagnslaus lög, í versta falli skaðleg. Ég er honum ósammála. Ég tel að frumvarpið tryggi áfram þá neytendavernd sem var tilgangur laganna sem samþykkt voru fyrr á þessu ári, en jafnframt klippi það burt ákveðna skavanka sem gera að verkum að þeir sem hafa verið sölumenn geta áfram haldið starfi sínu undir umsjón og á ábyrgð löggiltra fasteignasala.

Hv. þingmaður sagði að ekkert nýtt væri í þessu frumvarpi. Ég er honum ekki heldur sammála um það. Ég horfi á þetta saman í heild, lögin sem sett voru fyrr á árinu, lög nr. 70/2015, og það hvernig framkvæmdarvaldið túlkaði þau. Túlkun framkvæmdarvaldsins kemur fram í reglugerð og ég er ósammála hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni þegar hann segir að það sé ekkert sem komi í veg fyrir að sölumenn eða aðrir, hvaða nafni sem þeir heita, geti haldið áfram uppteknu starfi sínu, meðal annars það að sýna fasteignir sem er auðvitað snar þáttur í þessu dæmi öllu.

Í fyrsta lagi langar mig að rifja það upp að í 2. gr. laga nr. 70/2015, þ.e. lögunum frá því fyrr á þessu ári, kemur algerlega skýrt fram hverjir það eru sem hafa heimild til að hafa milligöngu um kaup og sölu á fasteignum. Þar segir einfaldlega: „Þeim einum er heimilt að hafa milligöngu fyrir aðra um kaup, sölu eða skipti á fasteignum eða skráningarskyldum skipum sem hafa til þess löggildingu sýslumanns.“ Þetta segir í 2. gr.

Í 3. gr. kemur síðan fram að til að geta fengið löggildingu þurfa menn að hafa lokið tilteknu námi og unnið í 12 mánuði hjá löggiltum fasteignasala. Og það sem skiptir kannski meginmáli varðandi það hvernig ráðuneytið túlkar þetta er sennilega 6. gr. sem fjallar um skyldu fasteignasala til starfa. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Óheimilt er fasteignasala að fela öðrum að vinna þau störf sem löggildingin tekur til nema um sé að ræða annan fasteignasala sem hefur ábyrgðartryggingu, […].“

Þetta er eins fast í gadda slegið og hægt er. Ég hef ekki komið áður að þessu máli og veit ekki hvernig þetta hefur verið túlkað í fortíðinni. En ég kem að þessari grein sem er að finna í lögum sem samþykkt voru á Alþingi og svona eru þau. Nokkuð fortakslaust er að orði kveðið. Þarna stendur algerlega skýrt að fasteignasali megi ekki fela öðrum þau verkefni sem um ræðir nema sá hinn sami hafi lokið löggildingu. Ég tel að nauðsynlegt sé út frá þessu að lesa þau reglugerðardrög sem ráðuneytið hafði opinberlega kynnt og væntanlega urðu þess valdandi að menn fóru á stúfana. Þar finnst mér þetta vera nokkuð ljóst og í gadda slegið. Í 3. og 4. gr. sem birtar eru á vef ráðuneytisins er kveðið mjög fast að orði. Það má enginn neitt nema löggiltur fasteignasali samkvæmt því sem þar segir. Í 3. gr. reglugerðarinnar, svo ég láti mér nægja að fjalla um hana, eru einfaldlega talin upp störf fasteignasala og þar er sagt fortakslaust: „Fasteignasala ber sjálfum að sinna þeim verkefnum sem löggilding hans nær til.“ Síðan eru talin upp hvorki meira né minna en tíu verkefni. Þetta eru verkefni sem í reynd taka til allra þeirra verka sem ég tel að sölumenn, þótt hvergi finnist það orð nú í lögunum, hafi komið að hingað til. Þetta eru þættir eins og gerð og undirritun samninga um þjónustu, gerð söluyfirlits sem er mjög mikilvægur partur af þeim viðskiptum, skoðun fasteignar og gerð verðmats, ráðgjöf til kaupenda og seljenda. Hvað fellur undir ráðgjöf? Skyldi það ekki vera sýning húsnæðis? En af því að hv. þingmaður nefndi það alveg sérstaklega þá segir þar alveg fortakslaust að meðal þeirra hlutverka fasteignasala sem ekki má framselja öðrum er sýning fasteigna.

Ég er þeirrar skoðunar að menn ættu ekki að spyrna of fast við hælum í þessu máli. Ég held að hér sé verið að gera málin skýrari. Það er hugsanlegt að áður fyrr hafi ráðuneytið ekki túlkað lögin jafn afdráttarlaust í reglugerð og núverandi handhöfn framkvæmdarvalds gerir. En ég tel að þegar maður les annars vegar lögin, og þá er ég að tala um að lesa saman 2., 3. og 6. gr. núgildandi laga, nr. 70/2015, og hins vegar 3. og 4. gr. reglugerðarinnar sem kynnt var á vef ráðuneytisins, þá sé það mjög skýrt að störf þeirra sem ekki eru löggiltir eru í uppnámi. Það sem vakir fyrir nefndinni og Alþingi með þessari lagasetningu, ef af verður, er að hreinsa burt það uppnám en halda um leið þeirri neytendavernd sem er að finna í lögunum.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason gerði líka að umtalsefni það ákvæði laganna sem býr til sérstaka tímabundna undanþágu fyrir þá sem eru komnir á tiltekinn aldur en hafa hins vegar ákveðna starfsreynslu. Það er auðvitað umdeilanlegt, hvernig menn leysa slík mál, en þetta er fráleitt nýlunda. Svona hefur verið gert mörgum sinnum eða þessi leið farin með einhverjum hætti þegar um hefur verið að ræða til dæmis, svo ég vísi til iðnaðarmála sem ég þekki dálítið til eftir að hafa farið með framkvæmdarvald á því sviði, þegar verið var að löggilda iðngreinar á sínum tíma. Þá voru settar hinar og þessar reglur sem gerðu mönnum kleift að komast yfir þennan hjalla og gerðu mönnum mögulegt að flytja sig á milli kerfa.

Um leið og ég hvet hv. þingmann til að halda fast við sannfæringu sína eins og stjórnarskráin býður honum, þá get ég hins vegar fullvissað hann um, það er að minnsta kosti mín skoðun eftir að hafa lesið þetta svona saman, að hér erum við að stíga jákvætt skref sem í senn styrkir grunninn undir fasteignaviðskiptum en kemur líka í veg fyrir óþarfa uppnám í störfum töluvert margra sem að þessu koma.

Herra forseti. Ég er algerlega sammála þeim sem sátu í nefndinni og voru öll þeirrar skoðunar að það væri rétt að málið gengi aftur til þingsins til endanlegrar afgreiðslu. Síðan getum við unnið saman að því í framtíðinni að slípa og hefla þessi lög. Um svona lög er einungis hægt að segja að þau eru í stöðugri endurskoðun og endursköpun. Ég er hins vegar sammála formanni eftirlitsnefndarinnar sem sagði það algerlega afdráttarlaust að hann væri mjög feginn að sjá þetta frumvarp og horfði mjög til framfaraáttar.