145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

sala fasteigna og skipa.

376. mál
[19:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er vafalítið töluvert til í því hjá hv. þingmanni að við getum verið sammála um margt. Um eitt er ég honum þó fullkomlega ósammála og það er að ég eigi best heima í Sjálfstæðisflokknum. Ég tel að það sé mikið ofmat á íhaldssemi minni, sem vissulega er þó til í ýmsum efnum en ekki í nægilegum mæli til þess.

Hefur hv. þingmaður velt fyrir sér þeim möguleika að það sé hugsanlegt að í fortíðinni hafi menn ekki túlkað lögin rétt í reglugerðum og verið of linir? Ég velti því fyrir mér vegna þess að hv. þingmaður segir og ég tek orð hans trúanleg í þeim efnum, að ekki séu efnisbreytingar í þeim greinum laganna sem ég hef verið að vísa til. Þær greinar hafa verið frá 2004, heyrðist mér hv. þingmaður segja, og að reglur og reglugerðir á grundvelli þeirra hafi ekki verið svo fastar.

En þegar ég kem að þessu með gömlum augum framkvæmdarvaldshafa og núverandi augum löggjafans og les lögin sýnist mér að reglugerðin sé í fullkomnu samræmi við lögin. Það er mín niðurstaða. Ég vísaði hér til þriggja lagagreina áðan úr lögunum sem samþykkt voru í vor. Þar segir alveg fortakslaust í 6. gr. að það sé óheimilt fasteignasala að fela öðrum að vinna störf sem löggildingin krefst nema um sé að ræða annan fasteignasala.

Hv. þingmaður segir síðan að það tíðkist að allir hafi aðstoðarmenn. Ja, er það? Ég hvet hv. þingmann til að lesa 4. gr. Þar er veitt ákveðin heimild og hún er svona, með leyfi forseta:

„Fasteignasala er ávallt heimilt að ráða starfsmenn til að sinna almennum skrifstofustörfum eða þjónustu sem ekki fellur undir fasteignaviðskipti …“

Þetta virðist alveg í gadda slegið og ég held að það séu ekki neinar rangtúlkanir af hálfu framkvæmdarvaldsins.