145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

sala fasteigna og skipa.

376. mál
[19:30]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að eldri löggjöf frá 2004 hafi því miður aldrei náð að funkera vegna þess að deilur voru út af skylduaðild og eftirlitsnefndin náði aldrei að móta neinar reglur. Framkvæmd laganna varð því því miður ekki nógu markviss. Síðan gerist það, er mér sagt, að fram kemur frumvarp og aftur kemur fram frumvarp og þau verða aldrei útrædd fyrr en á þessu þingi. Í fyrra kom loksins fram heildstætt frumvarp þar sem ekki er vísað í eldri greinargerðir og það er ekki bútasaumur. Það er sem sagt heildstæð löggjöf þar sem lög um fasteignasala eru endurskoðuð í heilu lagi. Ég hef ekki skipt um skoðun. Ég tel að að því hafi verið stefnt í lögunum að viðkomandi gæti ráðið sér ýmsa starfsmenn en það yrði aldrei rof á ábyrgð, það yrði aldrei framsal á ábyrgð þannig að hver sá sem starfaði sem aðstoðarmaður gerði það á ábyrgð fasteignasala. Um það snýst málið.

Síðan er hitt, sem ég tel megingalla á þessu frumvarpi, að ég fæ ekki séð hvernig nýliðun getur átt sér stað vegna þess að það er nánast verið að loka greininni. Það er stór galli á frumvarpinu. En ef menn vilja loka greininni er það mér að meinalausu. Ég segi bara ósköp einfaldlega að ein af mínum stærstu syndum í lífinu var sú að hafa ekki labbað til lögreglustjóra árið 1977 og keypt mér réttindi til fasteignasölu.