145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eins og hæstv. ráðherra segir, það er afar mikilvægt, eins og ég hef líka nefnt í mörgum ræðum sem ég hef flutt um húsnæðismál í þinginu, að við horfum á heildarmynd þeirra fjögurra húsnæðisfrumvarpa sem verða líklega eftir umræðu kvöldsins komin til velferðarnefndar. Það er einstaklega mikilvægt að öll þessi frumvörp nái fram að ganga þannig að allir hafi raunverulegt val um búsetuform, hvort sem þeir vilja vera á leigumarkaði, í eigin húsnæði eða fara millileið og búa í húsnæði húsnæðissamvinnufélaga, sem eitt af þeim frumvörpum sem eru nú til afgreiðslu í hv. velferðarnefnd snýst um.

Við erum að tala um aukin húsnæðisstuðning. Mig langar aðeins að minna á að það er mjög jákvætt sem við hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar samþykktum í atkvæðagreiðslu í morgun varðandi leigutekjur og (Forseti hringir.) lækkaða skatta á leigutekjur sem er mjög mikilvægt líka upp á aukið framboð á íbúðum.