145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:24]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir spurningarnar. Varðandi þriðja atriðið sem bent er á, að hlutfallslega sé aukningin meiri gagnvart þeim sem eru með hærri tekjur, þá er ástæðan fyrir því einfaldlega að viðkomandi hafi ekki átt neinn rétt hingað til. Þar verður meginmismunur milli vaxtabótakerfisins og húsaleigubótakerfisins, fólk hefur átt mun víðtækari rétt til vaxtabóta ef það hefur átt eigið húsnæði og hefur skuldsett sig og þar með hefur verið ákveðinn hvati til skuldsetningar. Aftur á móti þegar kemur að því fólki sem hefur verið á leigumarkaðnum þá hefur það fengið lítið sem ekki neitt. Þar er kannski verið að bæta við 1.000 kr., 4.000 kr., sem viðkomandi fær þá aukalega í bætur á mánuði og að fara frá því að vera með núll upp í þessa upphæð er í prósentum miklu hærra en þeir sem hafa verið með fullan stuðning í húsaleigubótakerfinu. Hins vegar eru upphæðirnar að sjálfsögðu alltaf hæstar gagnvart þeim sem hafa minnstu tekjurnar og eiga minnstu eignirnar.

Varðandi þennan mun. Munurinn sem við bendum á er að þeir sem eru á leigumarkaðnum, (Forseti hringir.) ástæðan fyrir því að þeir fá aukinn stuðning er eins og félagsvísarnir segja okkur og tölur Hagstofunnar: Fólkið sem er á leigumarkaðnum er einfaldlega efnaminna. (Forseti hringir.) Það hefur lægri tekjur. Það eru meiri líkur á að það búi við fátækt. Þar af leiðandi á það rétt á meiri stuðningi en þeir sem eru í (Forseti hringir.)