145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa ánægju með að frumvarpið skuli vera komið hér til umræðu og að það takist að mæla fyrir því og koma því til nefndar og til umsagnar. Við höfum lengi beðið eftir útfærslu á hækkun húsaleigubóta og umgjörð utan um húsnæðisbætur. Vinna við þetta hefur staðið yfir gríðarlengi, svo að segja lungann af síðasta kjörtímabili og allt þetta kjörtímabil. Það er afar mikilvægt að við sjáum þetta frumvarp koma hér til umræðu.

Þegar maður flettir yfir frumvarpið eru nokkur atriði sem ég hefði áhuga á að staðnæmast við og nefna. Það er mjög margt sem horfir til bóta. Ég nefni sérstaklega, frá því sem nú er, þá nýju reglu að börn teljist heimilismenn jafnt hjá umgengnisforeldrum og forsjárforeldrum eða hjá báðum foreldrum ef um er að ræða foreldra með deilda forsjá. Það er í samræmi við kröfur nútímans. En þegar maður horfir á stuðulinn sem byggt er á hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort hann taki nægjanlegt tillit til þess viðbótarkostnaðar sem fylgir heimilisrekstri með börn. Það er nú þannig í vaxtabótakerfinu, ef ég man rétt, að þar er stuðullinn fyrir einstætt foreldri með barn 1,5 en 2 fyrir hjón með barn. Oft hefur því verið hreyft að þar þyrfti að gera betur við einstæða foreldra. Það má segja að það sé ósköp lítill munur á því húsnæði sem þarf til eftir því hvort um hjón eða einstætt foreldri er að ræða. Það er kannski frekar barnafjöldinn sem ræður stærð húsnæðisins.

Það er líka hægt að velta þeirri spurningu upp af hverju húsnæðisbæturnar megi ekki taka til útleigu einstakra herbergja, í ljósi þess skorts sem er á húsnæði nú, sérstaklega fyrir stúdenta. Hvort ástæða sé til að girða sérstaklega fyrir það í lögum.

Varðandi spurninguna um hækkun leigu í kjölfar húsaleigubótakerfis, sem mikið er rætt um í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins, þá er það áreiðanlega þannig að engin leið er að koma í veg fyrir að leiga hækki eitthvað í kjölfar breytinga eins og þeirra sem hér er gert ráð fyrir. En það er auðvitað markmiðið með þeim að auka framboð leiguhúsnæðis á móti og það er kannski mikilvægasti árangurinn.

Það má líka ráða, af kostnaðarumsögninni, ákveðna gagnrýni á að stærri hluti nýju húsnæðisbótanna renni til tekjuhærri einstaklinga en áður. Mér finnst felast í því ákveðið skilningsleysi á eðli húsnæðisbótanna sem var ávallt ætlað að verða líkari vaxtabótunum og mæta öðrum en bara lágtekjufólki. Maður veltir hins vegar fyrir sér samhenginu með þeirri aðgerð að koma hér með húsnæðisbótafrumvarp, sem felur í sér að færa stuðninginn upp tekjustigann, á sama tíma og fjármálaráðherra er í óða önn að passa að verðbæta ekki fjárhæðir í vaxtabótakerfinu þannig að það er alltaf að færast neðar og neðar í tekjustiga.

Að síðustu vildi ég drepa á hlutverk sveitarfélaga í þessari nýju umgjörð, sem mér þykir nokkuð óljóst. Í kostnaðarumsögninni kemur réttilega fram að ekki er kveðið á um skyldur sveitarfélaga til að veita sérstakar húsaleigubætur. En í greiningunni á áhrifum á sveitarfélög er talað um 800 millj. kr. útgjöld hjá sveitarfélögum. Það er þá væntanlega bara hjá sumum þeirra. Ég vil kannski beina einni spurningu til hæstv. ráðherra, þ.e. með hvaða hætti tryggt verði að sveitarfélög muni almennt veita þann stuðning sem felst í sérstökum húsnæðisbótum til viðbótar. Því að ég óttast að framhald verði á því sem gætt hefur hingað til, að sum sveitarfélög kjósi ósköp einfaldlega að bjóða ekkert upp á sérstakar húsaleigubætur eins og gert hefur verið í fortíðinni í ýmsum sveitarfélögum og þau komi þar með velferðarbyrði og framfærslubyrði yfir á nágrannasveitarfélög. Við þurfum að binda enda á slíka aðskilnaðarstefnu milli sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það væri kannski helsta spurningin: Hvernig sér ráðherra fyrir sér að útfæra — það kemur fram í greinargerðinni að það á eftir að fara í slíka samninga við sveitarfélögin — skyldu sveitarfélaganna til að bjóða upp á sérstakar húsnæðisbætur?

Að síðustu vil ég ítreka ánægju með að þetta frumvarp skuli komið fram. Það er efnisríkt og vel unnið, sýnist mér, að öllu leyti. Það verður gaman að takast á við það hér í þinginu.