145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:31]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans. Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga er að við erum hér að búa til nýtt kerfi húsnæðisstuðnings. Við erum ekki að bæta við upphæðum inn í núverandi kerfi heldur að búa til nýtt kerfi með nýrri hugsun. Það sem hefur til dæmis verið gagnrýnt í núverandi kerfi að í núverandi húsaleigubótakerfi sé of mikið verið að búa til einhvers konar stuðning við barnafjölskyldur, sérstaklega þá einstæða foreldra. Hér horfum við hins vegar til þess að búa til kerfi sem bætir húsnæðiskostnað hjá fjölskyldum. Við höfum séð að það stundum hefur orðið verulegt áfall fyrir fjölskyldur sem haft hafa miklar barnabætur í gegnum kerfið, að þegar börnin verða átján ára missa foreldrarnir bæturnar en börnin eru áfram á framfæri þeirra og búsett þar. Það ætti svo sannarlega að taka á því.

Flest börn eiga tvo foreldra og báðir foreldrar eiga að bera áfram ábyrgð á framfærslu barna sinna óháð því hvort foreldrarnir búa saman eða ekki. Hér kemur inn nýtt ákvæði til að mæta því að það er raunverulegur húsnæðiskostnaður sem felst í því að vera foreldri.

Síðan varðandi útleigu á einstökum herbergjum. Við fórum yfir það fram og til baka hvort við ættum að gera eitthvað varðandi gagnrýni á það því að hún var ein af þeim stóru atriðum sem tekin voru upp í umsagnarferlinu í vor. En niðurstaða okkar er sú að það er mikilvægt að halda inni ákveðnum kröfum um viðmið á gæðum húsnæðis. Það er fyrst og fremst hugsunin á bak við þetta. Ég tel hins vegar líka, af því að bent hefur verið á það (Forseti hringir.) sérstaklega hvað varðar námsmenn sem eru á almennum leigumarkaði, að við þurfum síðan í auknum mæli (Forseti hringir.) að fjölga námsmannaíbúðum hjá námsmannafélögunum (Forseti hringir.) til þess að það verði sambærilegt við það sem við þekkjum annars staðar á Norðurlöndunum.