145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki þannig að með þessu frumvarpi séum við að skerða að einhverju leyti framlög til sveitarfélaganna heldur standa sveitarfélögin betur við þessar breytingar, eins og fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins og aðeins er komið inn á í umsögn sveitarfélaganna. Það er líka að sjálfsögðu í samræmi við stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga að gera þessa breytingu með þessum hætti. Þá vonum við líka að til framtíðar getum við verið með eitt húsnæðisstuðningskerfi varðandi húsnæðiskostnaðinn.

Um 30 sveitarfélög, ég er ekki með nákvæma tölu, eru með sérstakan húsnæðisstuðning. Þá eru öll stærstu sveitarfélögin komin með það fyrirkomulag. Við höfum ekki og ekki er tillaga um það í frumvarpinu að setja sérstakar reglur varðandi útfærsluna á því. Það er eitt af því sem ég tel ástæðu til að við skoðum varðandi breytingu á lögum um félagsþjónustuna. En það er ekki lagt til í þessu frumvarpi enda snýr það raunar að því að búa til nýtt kerfi, þ.e. stuðningur vegna húsnæðiskostnaðar, en ekki sérstakri framfærsluaðstoð. Við höfum líka lagt áherslu á að mikilvægt sé að standa vörð um sjálfræði sveitarfélaganna til að móta sína eigin stefnu um hvernig þau standa að þeim stuðningi.