145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[20:36]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um almennar íbúðir. Meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að því að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins með auknu aðgengi efnaminni leigjenda að öruggu og viðeigandi húsnæði til leigu og að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Í frumvarpinu er kveðið á um svokallaðar almennar íbúðir og starfsemi almennra íbúðafélaga sem er ætlað að hafa með höndum kaup eða byggingu, eignarhald og umsjón með rekstri almennra íbúða. Það eru íbúðir sem ætlaðar eru efnaminni leigjendum. Líka er fjallað um hvernig stuðningi hins opinbera verður háttað og viðmið um ákvörðun leigu vegna almennra íbúða og hvaða reglur gildi um úthlutun þeirra.

Eins og kom fram í máli mínu varðandi frumvarpið um húsnæðisbætur eru þau mál sem við mælum fyrir í dag liður í aðgerðum ríkisstjórnar Íslands til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, samanber yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 2015. Yfirlýsingin felur í sér aðgerðir í 11 liðum er varða tiltekin svið skatta- og velferðarmála, þar á meðal húsnæðismál og úrbætur á sviði hagstjórnar opinberra fjármála.

Annar liður yfirlýsingarinnar fjallar sérstaklega um húsnæðismál og er birtur sem fylgigagn með frumvarpinu. Þar kemur fram að ríkisstjórn Íslands skuldbindi sig í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök aðila vinnumarkaðarins til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Stuðlað verði að því að landsmenn hafi aukið val um búsetuform og búi við meira öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, einkum tekjulágar fjölskyldur. Því er lýst yfir að ríkisstjórn Íslands muni taka upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög ásamt aðilum vinnumarkaðarins með það að markmiði að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, styðja við leigumarkað, styðja við kaup á fyrstu íbúð og tryggja aukið framboð á íbúðarhúsnæði með ráðstöfunum sem nánar er kveðið á um í yfirlýsingunni. Þær ráðstafanir miða fyrst og fremst að því að bæta hag tekjulágra fjölskyldna og ungs fólks á húsnæðismarkaði. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum sem hingað til hafi ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Þar segir að lagður verði grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi sem fjármagnað verði með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema að núvirði 30% af stofnkostnaði. Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20–25% af tekjum.

Í yfirlýsingunni er talað um að þeir sem muni geta fengið stofnframlögin verði sveitarfélög, félög eða félagasamtök sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni og hafi það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Þeir sem munu hins vegar geta leigt þessar íbúðir verða að vera undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Talað er um að því að þeir verði að vera í svokölluðum lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn, en fólk er ekki skilyrt til að flytja út þegar það er komið upp fyrir þessi tekjuviðmið, og að áfram verði sama forgangsröð sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum sínum, skjólstæðingum félagsþjónustunnar og sama muni gilda um forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum og verði því engin breyting þar á. Hins vegar verði við frekari forgangsröðun við úthlutun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda og settar verði reglur um það með hvaða hætti heildarfjölda heimilaðra félagslegra íbúða verði skipt milli ólíkra markhópa og framkvæmdaraðila.

Í yfirlýsingunni er jafnframt tekið sérstaklega fram að settar verði skorður á ráðstöfun íbúðanna og söluhagnaðar. Eins og kom fram í máli mínu er í þessu frumvarpi lagt til að sett verði á stofn ný tegund leigufélaga, svokölluð almenn íbúðafélög, sem verða rekin í formi sjálfseignarstofnana í atvinnurekstri. Hins vegar er undanþága því að við erum að sjálfsögðu ekki að byrja á núllpunkti heldur erum við með öflug félög sem hafa verið að sinna þessum verkefnum. Það er því lagt til í frumvarpinu að sveitarfélög, leigufélög í þeirra eigu og félög sem hafa fengið hin svokölluðu 3,5% félagsleg leiguíbúðalán hjá Íbúðalánasjóði geti jafnframt fengið stofnframlög. Í frumvarpinu er lagt til að þeir sem ég nefndi geti fengið stofnframlög frá hinu opinbera og sveitarfélögum sem nemi samanlagt 30% af stofnvirði almennu íbúðanna til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem á þurfa að halda.

Með stofnframlögum ríkisins er átt við framlag sem nemur 18% af stofnvirði almennra íbúða sem Íbúðalánasjóður veitir í formi beinna framlaga eða með vaxtaniðurgreiðslu. Umsækjendur geta þar með sótt um að fá beinan fjárstuðning eða að fjárstuðningurinn verði tengdur við þá lánsfjármögnun sem viðkomandi aflar sér. Með stofnframlögum sveitarfélaga er í frumvarpinu átt við framlag sem nemur 12% af stofnvirði almennra íbúða. Stofnframlag sveitarfélags getur til dæmis verið í formi lóðar eða niðurfellingar gatnagerðargjalda eða annarra gjalda sem greiða ber til sveitarfélags. Gert er ráð fyrir að leigufjárhæð almennra íbúða skuli ákveðin þannig að leigutekjur standi undir öllum kostnaði við rekstur þeirra og fjármögnun, þar með talið vegna lóðar og sameignar sem tilheyrir almennri íbúð og greiðslum sem félaginu ber að inna af hendi samkvæmt frumvarpinu, svo sem í framkvæmdasjóð félags.

Annað meginmarkmið frumvarpsins og ein af stóru nýjungunum, sem mikil áhersla var lögð á frá hendi aðila vinnumarkaðarins, er að við erum að búa til félagslegt kerfi, nýtt kerfi, kerfi sem á að verða með tíð og tíma sjálfbært. Hér er verið að búa til varanlega lagaumgjörð óháð því fjármagni sem Alþingi ákveður, eða sveitarfélög, að setja í verkefnið hverju sinni til að tryggja framboð á slíku húsnæði. Til að ná þessu markmiði er gert ráð fyrir að eftir uppgreiðslu lána, sem tekin hafa verið á móti stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga til að fjármagna almennar íbúðir, renni sá hluti leigugreiðslna sem er umfram almennan rekstrarkostnað félagsins hverju sinni í sjóð sem er hér kallaður húsnæðismálasjóður. Með þessu fyrirkomulagi, sem er hliðstætt því sem tíðkast hefur í Danmörku um áratugaskeið, er ætlunin að smám saman byggist upp sjóður sem komi til með að standa undir greiðslu stofnframlaga bæði ríkis og sveitarfélaga til framtíðar. Slíkt kemur ekki til með að raungerast fyrr en að nokkrum áratugum liðnum þegar lán sem tekin verða á næstu árum hafa verið greidd upp. Með þessu móti er ætlunin að almenna íbúðakerfið verði smám saman sjálfbært þannig að leigjendurnir sjálfir viðhaldi kerfinu og tryggi að íbúðum haldi áfram að fjölga og að það fjármagn sem verður sett þar inn stuðli raunverulega að því að viðhalda kerfinu en ekki eins og við höfum séð gerast þar sem þau verðmæti eða sá félagsauður sem hefur orðið til í kerfi fer einhvern veginn út úr því og við hættum að fjölga íbúðum og hættum að horfast í augu við það að á hverjum tíma eru fjölskyldur sem þurfa svo sannarlega á þessum stuðningi að halda.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingum á þeim viðmiðum sem hafa verið varðandi tekju- og eignamörk þegar kemur að félagslegum íbúðum. Þau eru þau sömu og viðmiðin hafa farið í gegnum mat, m.a. hjá ESA, þannig að þau eru í samræmi við hlutverk stjórnvalda þegar kemur að hinu svokallaða almannaþáguhlutverki á íbúðamarkaði. Þetta verða því sömu tekju- og eignamörk og eru núna við 3,5% vexti af félagslegu leiguíbúðalánunum. Stofnframlögin munu koma í staðinn fyrir þessa niðurgreiddu vexti hjá Íbúðalánasjóði. Það leiðir til þess að stuðningur hins opinbera verður ekki lengur skilyrtur við lánveitingu frá Íbúðalánasjóði. Þeim sem sækja um stofnframlög er í sjálfsvald sett hvar þeir fá aðra fjármögnun en þau stofnframlög sem koma frá ríkinu. Þau geta komið frá Íbúðalánasjóði því að Íbúðalánasjóður hefur áfram heimild til að veita lán til leigufélaga á sömu kjörum og hann býður almennt. Bankarnir geta hins vegar, og það hafa þeir sannarlega sýnt, boðið upp á samkeppnishæf kjör hvað það varðar. Það gæti líka komið til greina að lán kæmi í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga eða í skuldabréfaútboði. Það er raunar ekki verið að setja nein ákvæði varðandi það hvernig verður staðið að fjármögnun á öðrum þáttum kerfisins.

Þetta fyrirkomulag, eins og hv. þingmenn og virðulegi forseti heyra, byggir mikið á danskri fyrirmynd. Það byggir á hinni svokölluðu „almen bolig“ löggjöf í Danmörku og þaðan kemur heitið almennar íbúðir og almenn íbúðafélög. Við byggjum frumvarpið á reynslu Dana þar sem þeir hafa náð að viðhalda kerfi sem varð sjálfbært og hefur farið í gegnum ýmis áföll og lifað þau og haldið áfram óháð því raunar hvaða ríkisstjórnir hafa komið að stjórn landsins. Hvort sem við erum að tala um stjórnir til hægri, vinstri eða við miðju þá hafa þær litið á fyrirkomulagið sem undirstöðu félagslega húsnæðiskerfisins.

Efni frumvarpsins byggist að miklu leyti á tillögum verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála. Í þeim hópum áttu sæti fulltrúar frá bæði ríki og sveitarfélögum sem og helstu hagsmunaaðilum á vinnumarkaðnum.

Ég vil líka fá að segja það hér að þetta frumvarp er unnið í mjög miklu samráði. Við leggjum mjög mikið upp úr því að vera með mikið samráð í ráðuneytinu þegar kemur að vinnslu mála, en þetta mál sker sig hins vegar alveg úr hvað það varðar. Það má segja að nánast hver einasta setning, hvern einasta málsgrein og svo sannarlega hver einasta grein hafi farið fram og til baka í samráðshópnum sem kom að húsnæðismálum þar sem þeir hagsmunaaðilar sem komu að gerð kjarasamninga áttu sæti og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir mikla vinnu við þetta mál.

Það er von mín að þegar þær tillögur sem felast í frumvarpinu koma til framkvæmda muni framboð á hagkvæmu leiguhúsnæði aukast, húsnæðiskostnaður efnaminni leigjenda lækka og þannig stuðli þær að auknu húsnæðisöryggi landsmanna og auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði. Ég vona jafnframt að þessu nýja kerfi verði gefinn tími til að vaxa, dafna og þroskast sem leiði að lokum til sjálfbærni kerfisins svo að hér verði til öflugur og stöðugur húsnæðismarkaður fyrir hverja einustu fjölskyldu, ekki bara sumar fjölskyldur heldur allar fjölskyldur.

Frumvarpið er ítarlegt. Ýmsar greiningar fylgja frumvarpinu, eins og útreikningar varðandi stofnframlögin og efnahagsáhrifin af því og öðrum aðgerðum sem eru lagðar til á þessu þingi varðandi húsnæðismarkaðinn, sem hafa verið unnar af ráðgjafarfyrirtækinu Analytica. Það er líka fjallað hér um greiðslustreymi og áætlanir varðandi umfang húsnæðismálasjóðsins og ýmsar sviðsmyndir hvað það varðar, hversu langan tíma það mun taka að byggja sjóðinn upp. Að sjálfsögðu er fjallað um mat á áhrifum á fjárhag sveitarfélaganna og kostnað varðandi það. Síðan er ítarleg umsögn frá fjármálaráðuneytinu.

Það er tvennt sem ég vil nefna sérstaklega og biðja velferðarnefnd að huga að í ábendingum annars ágætrar kostnaðarumsagnar fjármálaráðuneytisins. Hluti af yfirlýsingunni er að bæði verði í boði bein framlög og vaxtaniðurgreiðsla. Ákveðin gagnrýni kemur fram frá fjármálaráðuneytinu sem snýr að vaxtaniðurgreiðslunni og fyrirkomulagi á henni. Ég held að það sé við hæfi að nefndin fari vel yfir þær athugasemdir. Við munum að sjálfsögðu veita allar nauðsynlegar upplýsingar hvað það varðar.

Síðan hafa komið ábendingar varðandi húsnæðismálasjóðinn sjálfan. Þar sem sjóðurinn verður með mjög litla starfsemi í tiltölulega langan tíma gera okkar áætlanir ekki ráð fyrir að mikill kostnaður tengist sjóðnum. Hins vegar er sett stjórn yfir sjóðnum með þeim hætti að ríkið verður bara með einn stjórnarmann. Ástæðan fyrir því eru ákvæði um möguleika ríkisins og sveitarfélaganna að krefjast endurgreiðslu frá félögunum eða frá almennu íbúðunum varðandi stofnframlögin. Þau framlög sem fara hugsanlega inn í húsnæðismálasjóðinn munu fyrst og fremst koma frá kerfinu sjálfu, frá þeim sem eru búsettir í íbúðum kerfisins. Þar af leiðandi sáum við ekki ástæðu til þess að ríkið hefði meira vægi í stjórn sjóðsins en aðrir sem koma raunar að því að búa til kerfið, sem eru sveitarfélögin, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin, þ.e. fulltrúarnir.

Síðan eru vangaveltur um greiðslurnar þegar þær fara að berast, hvort þær þurfi hugsanlega að fara í gegnum ríkissjóð. Ég tel svo ekki vera, heldur muni greiðslurnar fara beint inn í sjóðinn. Hann verður ekki í eigu ríkisins. Hins vegar mun að sjálfsögðu verða farið eftir þeim lögum og reglum sem við ætlum að setja. Þetta er nokkuð sem ég veit að nefndin mun fara mjög vel yfir og líta á aðrar forsendur málsins.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar til umfjöllunar.