145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[20:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og ég tel mjög mikilvægt að þessi sýn ráðherrans á málin komi fram. Ég vil hins vegar segja það og ítreka að ekki þarf allt fatlað fólk á sérstöku aðgengi að halda og það er í raun bara lítill hluti fatlaðs fólks. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að standa vörð um hagsmuni þessa litla hóps því að þó svo að vísað sé til þess að huga eigi að fötluðum þá er alltaf hægt að tala um einhvern annan hóp.

En ég treysti því að ráðherrann hafi skilning á því að passa þurfi upp á þetta. Ég velti því bara fyrir mér, og beini því til hv. velferðarnefndar að skoða það, hvort mögulega þurfi að styrkja orðalagið í 18. gr.

Mig langar af því tilefni að minna á að hér er unnið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en þar segir í 9. gr., sem fjallar um aðgengi, að grípa eigi til ráðstafana til að ryðja úr vegi hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi og að það skuli meðal annars ná til bygginga og íbúðarhúsnæðis. Ég vildi bara minna á þessa grein og hvetja hæstv. ráðherra sem og hv. velferðarnefnd til að passa að aðgengi að íbúðunum verði tryggt þannig að réttur þeirra sem á einhvern hátt eiga erfitt með ferlimál sé tryggður.