145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

almennar íbúðir.

435. mál
[21:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram og gaman að sjá það. Ég kannast nú við margt sem hefur verið í vinnslu árum saman í þessu og gott að sjá það útfært með þetta vönduðum hætti. Ég er sérstaklega ánægður með hugmyndina um húsnæðismálasjóð. Ég held að sjóðsöfnun í þessu kerfi sé mikilvæg, en vandinn er hins vegar að okkur Íslendingum hefur alltaf veist mjög erfitt að sjá einhverja peninga í friði sem mynda eign einhvers staðar og það var veikleikinn við verkamannabústaðakerfið, að menn ákváðu að éta það eða gefa það þeim sem bjuggu þá í kerfinu. Mér finnst þessi hugmynd um húsnæðismálasjóð sem stjórnað er af aðilum vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins saman vera skynsamleg, vegna þess að við höfum nýlega reynslu af því úr efnahagshruni að það veittist okkur þá afar vel að hafa aðila vinnumarkaðarins sem vörslumenn lífeyriskerfisins. Ég er alveg sannfærður um að ef stjórnvöld hefðu ein farið með yfirstjórn lífeyriskerfisins í hruninu hefði þrýstingurinn á að éta lífeyriskerfið til að deyfa sársaukann af hruninu verið óbærilegur fyrir hið pólitíska vald. Ég held því að þetta sé býsna áhugaverð hugmynd og er tilbúinn til að horfa á hana áfram. Ég held líka að mjög mikilvægt sé að veita þetta fyrirheit þó vissulega sé mjög langt í það að kerfið verði sjálfbært, alveg fram undir 2050 þegar við verðum farin að eldast nokkur hér í salnum, en þá er þó einhver framtíðarsýn um að hægt sé að byggja upp sjálfbært kerfi.