145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[21:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsögu hans í málinu. Hér er um að ræða að stofna félag sem Seðlabankinn skal stofna, skipa stjórn félagsins, það er hins vegar Ríkisendurskoðun sem ætlað er að hafa eftirlit með starfsemi félagsins. Síðan er greint frá því að ráðherra skuli hafa samráð við Seðlabankann um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika, þ.e. sölu eignanna, og kynna málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þessa félags gagnvart þinginu. Það er mjög mikilvægt í ljósi þeirra yfirlýstu markmiða sem koma fram um að félagið leggi áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni að þetta gagnsæi sé tryggt með einhverjum hætti. Ráðherra reifaði að hann mundi kynna þennan samning milli félagsins og ráðherra fyrir þinginu á einhvern hátt. Telur ekki hæstv. ráðherra að það þurfi að skrifa það miklu skýrar út í þessu frumvarpi hver nákvæmlega aðkoma þingsins á að vera í ljósi þess að það eina sem er getið um í lagatextanum er að kynna málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps, sem er í raun og veru mjög lítill hluti? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að skerpa mun betur á eftirlitshlutverki þingsins gagnvart þessu félagi sem fer með alveg gríðarlega miklar eignir og umsýslu þeirra.