145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[21:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að við gerum greinarmun á tvennu hér. Það er annars vegar verkefnið sem við ætlum að fela félaginu, sem er eingöngu það að annast um þessa umsýslu. Það er sjálfsagt að láta þess getið að við erum að ræða um töluvert mikil verðmæti, yfir 60 milljarða. En þegar horft hefur verið til þess hve mikið af þessum eignum gætu verið auðseljanlegar eignir er líklegt að verkefni snúi að fjárhæðum einhvers staðar rétt undir 40 milljörðum, sýnist sérfræðingum í fjármálaráðuneytinu. Það er þessi umsýsla annars vegar og svo hins vegar ráðstöfun verðmætanna. Þetta mun þá gerast þannig að þegar félagið hefur komið eignum í verð fer andvirðið inn á reikning ríkisins í Seðlabankanum og það er við ráðstöfun á þeim verðmætum sem þetta samráð er skrifað inn, samráð við Seðlabankann, samráð við þingið í gegnum fjárlagagerðina, að gera grein fyrir því þar. Hinn þátturinn af samráðinu er á þeim tíma sem verðmætin eru enn þá óinnleyst inni í félaginu og um þá meðferð gildir samningurinn og mér finnst sjálfsagt að ræða það hér nánar með hvaða hætti við getum hagað eftirlitshlutverki þingsins yfir það tímabil. Það er um að gera að hafa sem mest gagnsæi um það hvaða aðferðum verður þar beitt. En við skulum hafa það í huga að eftir að samningurinn hefur verið gerður er ekki við því að búast að það verði neitt annað á ferðinni inni í þessu félagi en bara það sem segir í samningnum, líkt og við felum ýmsum aðilum í ríkiskerfinu hin ýmsu verkefni og við getum kallað eftir því hvort ekki sé verið að sinna þeim einhvern veginn. En það ætti svo sem ekkert annað að vera að frétta af þessu félagi en það að það sé annaðhvort búið að selja eða væntanleg sala fram undan á eignunum. Það er stefnt að því að koma þessu öllu í verð fyrir sem hæst verð sem allra fyrst.