145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[21:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Meginrökin fyrir því að félaginu er komið fyrir hjá Seðlabankanum tengjast því að þær eignir og þau verðmæti sem hér er um að ræða eru að koma út úr slitabúunum og við höfum átt samstarf við Seðlabankann um afnám haftanna allt frá upphafi og í tengslum við endurreisn bankanna var komið á fót félögum innan Seðlabankans, eða allt frá þeim tíma þegar unnið var að endurreisn bankanna. Ég get þar vísað til eignarfélags Seðlabanka Íslands. Þar hafa líka verið önnur félög eins og Hilda. Á sínum tíma stóð til að stofna félagið Sölvhól. Þar hefur byggst upp þekking. Hérna er um að ræða eignir sem spretta út úr haftaafnámsferlinu þar sem Seðlabankinn hefur verið mjög skammt undan. Hann mun veita umsögn um ráðstöfun þess andvirðis sem um ræðir, þ.e. söluandvirðis eignanna. Það þótti því liggja nærri að eiga áfram samstarf og nýta þá þekkingu sem hefur byggst upp í eignaumsýslu inni í Seðlabankanum í sérstöku félagi. En þar hafa mörg hundruð milljarðar verið í eignaumsýslu allt frá hruninu. Aðrir kostir sem hefðu getað komið til skoðunar voru jú þeir að fela Bankasýslu ríkisins að annast um þetta. Hún hefur hins vegar haft það afmarkaða hlutverk að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og mun hafa nóg á sinni könnu varðandi undirbúning að sölu þeirra eigna. Í þriðja lagi hefði svo sem komið til greina að koma á fót einhvers konar nýrri einkavæðingarnefnd inni í stjórnkerfinu. Það hefði mátt gera. Beint undir Stjórnarráðinu með einhverjum hætti. (Gripið fram í.) En þetta er sú leið sem varð ofan á. Ég vonast til að með því gegnsæi sem við erum hér að leggja upp með (Forseti hringir.) geti tekist góð sátt um þetta.