145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[22:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ja, það var nú mál til komið, herra forseti, að hv. þingmaður gerði það. En aðeins til að skýra þetta betur fyrir sjálfum mér og öðrum vil ég líka benda á að þingið hefur aðkomu að þessu máli og einmitt þeim hluta málsins sem kannski er mest þörf á að endurspegla hvað er að gerast og viðhafa eins mikið gagnsæi og hægt er. Það stafar af því að í gegnum frumvarpið mun undirstofnun eða ein af stofnunum þingsins, þ.e. ríkisstofnun, hafa eftirlit með allri starfsemi félagsins og þar með með hvaða hætti innlausn eignanna fer fram og hvernig samningurinn er framkvæmdur. Það er í sjálfu sér nokkuð góð trygging sem þingið hefur í því fyrir að það sé gert með réttum hætti.

Hins vegar tel ég að mikilvægt sé að þingið hafi sem gleggsta mynd yfir með hvaða hætti þetta gerist og ég treysti hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir því að herða aðeins betur tökin á ferlinu og orðalaginu í frumvarpinu þegar verið er að tala um kynningu. Mér finnst það dálítið veikt. Þetta er sama orðalag og var í lögunum sem við samþykktum um stöðugleikaskattinn og ég gagnrýndi það þá. Ég ætla sömuleiðis að gera það hér því að andlagið er eitt og hið sama. Ég tel að þingið þurfi að hafa meiri tök á þessu. Þess vegna held ég í fyrsta lagi að setja eigi skýrari fyrirmæli um það hvernig efnahags- og viðskiptanefnd getur haft aðkomu að málinu og það er að minnsta kosti svartalágmark að það sé orðað á þann hátt að það sé samráð eins og við Seðlabankann. Það er kannski helst það sem ég vildi vekja eftirtekt hér á.

Síðan vil ég aftur undirstrika að ég tel að það komi vel til greina og eigi að skoða að ráðherrann (Forseti hringir.) gefi með einhverjum hætti skýrslu um málið með reglulegu millibili, einkum og sér í lagi vegna þess að það mun taka fljótt af. Hæstv. ráðherra telur að þetta muni gerast hratt.