145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[22:34]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ábendingar. Ég fullvissa hann um að það eru einmitt þessir hlutir sem nefndin þarf að kanna í sinni vinnu. Það verður reynt að skoða þetta allt sem allra best. Við erum líka að velta fyrir okkur hvort nægilega sé að því gætt, og ég beini kannski þeirri spurningu til hv. þingmanns, hvort nægilega sé hugsað fyrir því að einhverjar eignir þarna kunni að vera eignarhlutir í félögum eða kröfur á félög eða jafnvel einstaklinga, við vitum það ekki enn þá, sem geti átt erfitt með að eiga í viðskiptum við fullnustufyrirtæki eins og þetta fyrirtæki verður. Við erum í rauninni ekki að hugsa um rekstur til lengri tíma heldur að fullnusta kröfurnar eða selja þær. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort við í nefndinni þurfum kannski að velta fyrir okkur hvað við höfum lært af reynslunni með Dróma og hvort ekki sé brýnt að reyna að koma þessum kröfum í hendur einhverra fyrirtækja sem hafa áhuga á viðvarandi viðskiptasambandi við þann skuldara sem krafan stendur á, hvort það sé eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur.