145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

6. mál
[22:36]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, svonefndan OPCAT-samning.

Nefndin hefur fjallað um málið. Þingsályktunartillagan var til umfjöllunar í nefndinni nú í annað sinn. Samhljóða tillaga var afgreidd úr nefndinni á 144. löggjafarþingi en var ekki tekin til síðari umræðu. Nefndin styðst við þá umfjöllun sem málið fékk í nefndinni þá og byggir nefndarálit þetta á fyrri afgreiðslu. Við umfjöllun á 144. löggjafarþingi fékk nefndin á sinn fund Maríu Rún Bjarnadóttur frá innanríkisráðuneyti, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Hörð Helga Helgason og Önnu Lúðvíksdóttur frá Íslandsdeild Amnesty International. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Afstöðu, félagi fanga á Íslandi, innanríkisráðuneytinu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd og Stjórnarskrárfélaginu. Einnig bárust nefndinni umsagnir frá allsherjar- og menntamálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Þingsályktunartillagan felur í sér að ríkisstjórninni verði falið að fullgilda fyrir Íslands hönd valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18. desember 2002 og var undirrituð fyrir Íslands hönd 23. september 2003, ásamt því að hefja án tafar undirbúning innleiðingar hennar hér á landi.

Í bókuninni er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja reglulega stofnanir sem vista frelsissvipta einstaklinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Um tvíþætt eftirlit er að ræða. Annars vegar á vegum alþjóðlegrar nefndar sem heimsækir reglulega þær stofnanir í aðildarríkjum sem vista frelsissvipta einstaklinga og setur fram tilmæli og ábendingar um úrbætur. Hins vegar er um að ræða eftirlit sem komið er á fót innan hvers aðildarríkis samkvæmt fyrirmælum bókunarinnar og sem lýtur að sjálfstæði, nauðsynlegri sérþekkingu og jafnvægi í kynjahlutfalli þeirra sem sinna eftirlitinu. Það er hins vegar á forræði aðildarríkjanna að taka ákvörðun um fyrirkomulag hins innlenda eftirlits. Þá kveður bókunin á um skuldbindingar aðildarríkja að því er varðar aðgang eftirlitsstofnana að frelsissviptum einstaklingum, aðgang að upplýsingum um fjölda slíkra einstaklinga og stofnana sem með þau mál fara, sem og vernd þeirra aðila sem eftirlitsaðilar hafa samskipti við. Enn fremur hvílir sú skylda á aðildarríkjunum að taka við tilmælum og ábendingum um það sem betur má fara og eiga samráð við eftirlitsaðila eftir atvikum.

Við umfjöllun nefndarinnar á 144. löggjafarþingi kom fram almenn jákvæðni í garð tillögunnar, enda hafa flest ríki sem Ísland ber sig saman við þegar fullgilt bókunina. Ýmis mannréttindasamtök hafa þrýst á fullgildingu hennar um nokkurt skeið og hefur skortur þar á verið tilefni umfjöllunar í skýrslum nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum um framkvæmd pyndingarsamningsins hér á landi sem og í skýrslu nefndar Evrópuráðsins gegn pyndingum frá 2013.

Fullgilding bókunarinnar kallar á undirbúning innleiðingar skuldbindinga hennar í íslensk lög. Annars vegar þarf að tryggja að hin alþjóðlega undirnefnd um varnir gegn pyndingum geti sinnt eftirliti hér á landi og njóti hér þeirra réttinda sem bókunin kveður á um. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þetta ætti að vera einfalt þar sem fyrrnefnd nefnd Evrópuráðsins gegn pyndingum hefur þegar slíkar heimildir samkvæmt íslenskum lögum. Hins vegar þarf að ákveða útfærslu á hinu innlenda eftirliti og tryggja viðkomandi aðila viðeigandi lagastoð, fjármagn og aðstöðu til að sinna þeim skuldbindingum. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að eftirlitið muni byggjast á þverfaglegri samvinnu sérfræðinga, svo sem lögfræðinga, lækna og sálfræðinga. Því væri mikilvægt að tryggja nægilega sérfræðiþekkingu á þessum ólíku sviðum. Í því sambandi má geta þess að innanríkisráðuneytið hefur þegar hafið undirbúning innleiðingar hér á landi með það að markmiði að taka ákvörðun um það hvernig eftirlitinu verði best fyrir komið. Fyrir liggur að í bókuninni er gerð krafa um að hið kerfisbundna eftirlit verði sett á laggirnar innan árs frá fullgildingu. Aðildarríki geta þó frestað þeirri skuldbindingu um þrjú ár með yfirlýsingu þess efnis við fullgildingu bókunarinnar. Þá er jafnvel möguleiki á framlengingu til tveggja ára til viðbótar reynist þess þörf. Nefndin leggur það í hendur stjórnvalda að meta þörfina á slíkri yfirlýsingu við fullgildingu bókunarinnar en telur mikilvægt að ljúka innleiðingu hennar sem fyrst og eigi síðar en þremur árum eftir fullgildingu bókunarinnar. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit skrifar sá sem hér stendur, framsögumaður Óttarr Proppé, Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, hv. þingmenn Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Karl Garðarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, og Vilhjálmur Bjarnason. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu, en þau Silja Dögg Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir þann anda sem hér kemur fram og hvet okkur til þess að samþykkja þingsályktunartillöguna og hraða fullgildingu.