145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

6. mál
[22:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og aðrir í þessari umræðu vil ég þakka þeim sem hafa haft frumkvæði að því að koma með þetta mál inn í þingið og hafa lagt mest af mörkum til að vinna því fylgi hér og koma því áleiðis. Það er alveg rétt sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi um að góð sátt hefur verið um það í þinginu og á vettvangi utanríkismálanefndar sem hefur haft það með höndum bæði á þessu þingi og því síðasta. Þar náðist góð niðurstaða á síðasta þingi en málið lenti milli skips og bryggju í afgreiðslu mála í vor. Þess vegna er mikið ánægjuefni að það sé komið til afgreiðslu nú.

Auðvitað finnst okkur sjálfsagt að Ísland sé í fararbroddi á þessu sviði eins og öðrum en hins vegar er staðreynd málsins sú að við höfum orðið seinni til þess að fullgilda og hrinda ákvæðum þessa samnings í framkvæmd en forsvaranlegt er. Við höfum fengið upplýsingar úr innanríkisráðuneyti um að þar sé unnið að því að finna lausnir á þessum málum. Það skiptir hins vegar verulegu máli að þingið láti afstöðu sína skýrt í ljós í þessum efnum og þrýsti þar með á um að stjórnkerfið bregðist við og leggi upp þær lausnir og þær útfærslur varðandi eftirlit með stöðu þessara mála sem gert er ráð fyrir. Þess vegna er það fagnaðarefni fyrir okkur öll sem að þessu höfum komið að nú hillir undir að málið nái loks afgreiðslu í þinginu. Síðan verður það auðvitað verkefni okkar í þinginu að veita stjórnkerfinu aðhald til þess að ákvæðunum verði framfylgt.