145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

6. mál
[22:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig ætla ég ekki að lengja þessa umræðu nema að taka undir það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir segir. Við viljum auðvitað trúa því að þessi mál séu í tiltölulega góðu horfi hér miðað við það sem gerist víða annars staðar. Hins vegar er staða frelsissviptra einstaklinga alltaf viðkvæm og reynslan bæði héðan og frá öðrum löndum, jafnvel þótt þau teljist vera nokkuð þroskuð lýðræðisríki, sýnir að þörf er á aðhaldi og eftirliti á þessu sviði. Mál af þessu tagi hafa að einhverju leyti verið á borði umboðsmanns Alþingis og hann hefur út af fyrir sig á undanförnum árum lagt mikla vinnu í mál sem tengjast til dæmis stöðu fanga. En ég held að sértækara eftirlit af því tagi sem gert er ráð fyrir í þessu máli sé mikilvægt. Það er mikilvægt aðhald inn á við og það er líka mikilvægt fyrir okkur að geta sýnt það út á við að við séum með hlutina í góðu horfi.