145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Lög um almannatryggingar voru sett til að aldraðir og öryrkjar gætu haldið reisn sinni og lifað mannsæmandi lífi. Þau voru ekki sett til að hv. stjórnarliðar gætu nýtt sér lagabókstafinn til að halda þessum hópi fátækustum á Íslandi. Þessi sama hæstv. ríkisstjórn og þeir sömu hv. þingmenn sem hana styðja sem greiða atkvæði gegn afturvirkum hækkunum hér til ellilífeyrisþega og öryrkja greiddu atkvæði með því við síðustu fjárlagagerð að hækka gjöld sem þessir sömu hópar greiða til að ná sér í þjálfun og nýta sér hjálpartæki og skröpuðu með því nokkur hundruð milljónir í ríkissjóð. Það var gert fyrir árið 2015 og núna á að sjá til þess að halda hópnum á enn lakari kjörum.