145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Efnahagsbatinn sem ríkisstjórnin gumar töluvert af skilar sér ekki réttlátlega til allra. Stöðugleikinn sem við erum sífellt að ræða um á að snúast um að tryggja öllum mannsæmandi kjör og mannsæmandi líf, hvort heldur er eldri borgurum, öryrkjum eða láglaunafólki. En ríkisstjórnin ætlar að láta þetta fólk sitja eftir enn einu sinni og við stöndum frammi fyrir því að stór hluti þess getur ekki náð endum saman með þá framfærslu sem því er skömmtuð. Ég ætla að vitna í orð forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„… fjölmargir sem hafa mátt þola óeðlilegar skerðingar, t.d. eldri borgarar og öryrkjar þurfa að fá bót sinna mála. […]

Ísland býr yfir nægum auðlindum, framleiðslugetu og þekkingu til að allir geti notið velferðar. Til þess þarf bara skynsemi við stjórn landsins.“

Virðulegi forseti. Hér er ekki verið að sýna skynsemi við stjórn landsins.