145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og óska þjóðinni til hamingju með að við séum hér að lögfesta þetta frumvarp sem verður án nokkurs vafa langstærstu og mikilvægustu lög þessa haustþings. Þetta snýr að aga, langtímahugsun og ábyrgð í ríkisfjármálum og opinberum fjármálum. Það er hins vegar alveg rétt sem hefur komið hér fram, það er ekki nóg að lögfesta, vinnubrögð þurfa að fylgja því sem þarna stendur og það snýr ekki bara að hv. Alþingi heldur líka að fjölmiðlum og öðrum þeim sem um þessi mál fjalla.

Miðað við umræðuna sem sló öll met í fjárlagagerðinni núna held ég að við séum langt frá þeim markmiðum sem við leggjum upp með í þessu frumvarpi og nokkuð góð (Forseti hringir.) þverpólitísk sátt er um. Betur má ef duga skal, en til hamingju með þessi lög.