145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

6. mál
[11:22]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek þátt í hamingjuóskunum en legg áherslu á að hamingja okkar á ekki að vera fólgin í forminu heldur innihaldinu. Við unnum að þessu máli á síðasta kjörtímabili og ég veit að enn er unnið að þessu máli í innanríkisráðuneytinu af hálfu hæstv. núverandi innanríkisráðherra. Það sem staðið hefur á í þessu efni er ekki viljinn til að tryggja að ekki séu stundaðar pyndingar á Íslandi eða að fangar eða aðrir sem eru sviptir frelsi sínu sæti ómannúðlegri meðferð, heldur að hinn stofnanalegi eftirlitsþáttur er enn ekki til staðar. Hins vegar er unnið að því að svo verði.

Ég vil leggja áherslu á að þetta mál er ekki að fæðast í dag.