145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég segi það aftur: Þetta er tímabundið framlag til RÚV. Þetta er ekki lán til RÚV eins og er í tilfelli Vegagerðarinnar. (Gripið fram í.) Þetta er tímabundið framlag. Þingið getur tekið þessar ákvarðanir og þá kemur þetta að sjálfsögðu inn debetmegin hjá Ríkisútvarpinu og kreditmegin hjá ríkissjóði.

Úr því að talið barst að mörkuðum tekjum vil ég einnig minna á að þingið samþykkti lög um opinber fjármál rétt fyrir hádegi. Þau innihalda að mestu að markaðar tekjur verði aflagðar og að hver málaflokkur fái framlög frá ríkinu. Það var einmitt spurt á fundi RÚV með fjárlaganefnd í vikunni hvernig það mundi fara. RÚV fellur undir 19. tölulið í því frumvarpi og þá fær það ríkisframlag sem er ákvarðað af menntamálaráðherra.