145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að það væri álit meiri hluta fjárlaganefndar að hægt væri að auka innlenda dagskrárgerð án kostnaðaraukningar. Nú virðist þetta sjónarmið ekki ríma við viðhorf yfirstjórnar Ríkisútvarpsins. Ég hlýt því að spyrja hv. þingmann á hverju þessi ályktun sé byggð. Það blasir líka við að áhersluatriði stjórnar RÚV nú eru á aukningu í barnaefni, innlendu efni og þjónustu við landsbyggðina. Þetta eru allt dýrir póstar og hljóta að vera það fyrsta sem lendir undir niðurskurðarhnífnum nú þegar ekki hefur reynst vilji hjá meiri hluta fjárlaganefndar til að láta RÚV njóta óbreytts útvarpsgjalds.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Á hverju er sú staðhæfing byggð að hægt sé að auka innlenda dagskrárgerð án kostnaðaraukningar? Og hvernig (Forseti hringir.) hyggst þá meiri hluti fjárlaganefndar bregðast við hinum óhjákvæmilega niðurskurði á barnaefni, innlendu dagskrárefni og þjónustu við landsbyggðina?