145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar segir að meiri hluti fjárlaganefndar stýri ekki Ríkisútvarpinu. Það er rétt svo langt sem það nær en það nær ekkert mjög langt vegna þess að fjárlaganefnd og fjárveitingavaldið á Alþingi stýrir fjárhag Ríkisútvarpsins, setur Ríkisútvarpinu ramma.

Ég er ekki nákvæmlega inni í bókhaldi Ríkisútvarpsins en ég hef hlustað eftir áherslum. Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins segja að reksturinn standi í járnum, að til að halda sjó þurfi óbreytt framlag frá því sem nú er. Það er verið að skera það niður. Hins vegar segist meiri hluti fjárlaganefndar vilja efla innlenda dagskrárgerð í höndum einkaaðila utan Ríkisútvarpsins. Það er hugsunin. Það er nokkuð sem ég mun koma að í mínu seinna andsvari. (Forseti hringir.)

Ég spyr engu að síður núna. Hv. formaður nefndarinnar sagði að til stæði að stofna sérstakan dagskrárgerðarsjóð, fjármagnaðan af útvarpsgjaldi. Sér hún það þá þannig fyrir sér að til standi að hækka útvarpsgjaldið? Eða á að taka af útvarpsgjaldi til Ríkisútvarpsins til að setja í annað?