145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil spyrja hana út í nokkra hluti. Hv. þingmaður gagnrýndi að eignarskattar hefðu verið aflagðir og getur þá ekki verið að vísa í annað en auðlegðarskattinn sem var ekki endurnýjaður. Hann var tímabundinn skattur og lagðist mjög hart á eldri borgara sem áttu skuldlítið húsnæði, höfðu ekki haft tækifæri til að vera í lífeyrissjóðum en áttu einhvern sparnað.

Sem fjármálaráðherra sagði hv. þingmaður mjög skýrt í viðtali við Viðskiptablaðið, og var ekki mótmælt af neinum þáverandi stjórnarliðum, um auðlegðarskattinn:

„Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“

Svo mörg voru þau orð. Ég held að það skipti máli fyrir trúverðugleika Samfylkingarinnar að hv. þingmaður útskýri orð sín þarna í ljósi þeirrar umræðu og þeirra skilaboða sem síðar komu frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, raunar Vinstri grænna líka en hv. þingmaður getur ekki svarað fyrir þá.

Hv. þingmaður var í stjórnarmeirihlutanum á síðasta kjörtímabili og talaði mjög mikið um heilbrigðismálin. Af hverju var hlutfallslega meira skorið niður í heilbrigðismálum sem kemur meðal annars fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, auðvitað líka þegar maður skoðar ríkisreikning, en í öðrum málaflokkum? Af hverju var skorið meira niður í heilbrigðismálunum og bætt til dæmis í umhverfismálin og utanríkismálin?

Hv. þingmaður veltir í þriðja lagi fyrir sér af hverju afkoma ríkissjóðs sé ekki betri. Af hverju eru þá tillögur hv. stjórnarandstöðu eins og þær eru, annars vegar varðandi bætt skatteftirlit og hins vegar um auknar arðgreiðslur bankanna? Þetta eru ekki trúverðugar tillögur. (ÖS: Passaðu að …)