145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Fyrst aðeins út af því sem hv. þingmaður sagði varðandi skilyrði RÚV, þá er það alveg skýrt, ef hv. þingmaður les bókunina sem var með fjárlögunum síðast, að skilyrðin, sem farið var fram á um sjálfbæran rekstur, áætlun um það, áttu að vera samþykkt af ráðherranefnd um ríkisfjármál fyrir lok mars á þessu ári. Það er alveg skýrt að það var ekki gert.

Hv. þingmaður þekkir það líka, sem meðlimur í hv. fjárlaganefnd, að spurningum, sem við höfum sett fram varðandi rekstur RÚV, hefur verið svarað með þeim hætti að ekki sé heimilt að svara þeim út af því að þá þurfi að tilkynna það um leið í Kauphöllina. Ríkisútvarpið hefur sent bréf á FME sem hefur sagt að það sé ekki túlkun þeirra hvað það varðar, þ.e. FME er ekki sammála túlkun RÚV hvað það varðar, enda er það orðið mjög skrýtið ef þetta er eina stofnunin á vegum ríkisins sem hv. fjárlaganefnd getur ekki fengið svör um hvað varðar fjárhagslega stöðu. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni þegar hún leggur málin upp með þessum hætti. Ég hvet hana svo til að lesa bréfið sem vísað er í hjá hv. fjármálaráðuneyti um það mál sem um er rætt. Það er alveg skýrt að ráðherranefnd um ríkisfjármál átti að samþykkja skilyrðið og það var ekki gert.

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég held að það skipti máli: Það er verið að gagnrýna það að við höfum tekið af eignarskatta af gömlu fólki og látið þá tímabundnu skatta síðustu ríkisstjórnar renna út, bara svo kjósendur viti það, af því að þetta var kynnt af þáverandi formanni VG sem tímabundinn skattur, auðlegðarskattur: Hvað þýðir það þegar VG segir tímabundinn skattur? Þýðir það að það sé algerlega ótímabundið?