145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:36]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að stikla á stóru og byrja á því að taka undir það sem systur mínar, hv. þingmenn í minni hluta fjárlaganefndar hafa tekið fram, sérstaklega varðandi kjör aldraðra og öryrkja, Landspítalann og Ríkisútvarpið, einnig yfirfærslu málefna fatlaðs fólks, sérstaklega þegar kemur að notendastýrðri persónulegri aðstoð, NPA-verkefnið, að það teljist jafn rétthátt og önnur úrræði þegar það virkar. Það er mjög gott og áhugavert tilraunaverkefni sem hefur haft gífurlega góð áhrif fyrir þá sem þurfa á þessu að halda.

Ég ætla að fá að vera svolítið jákvæð í dag í tilefni jólanna og þess að við séum loksins komin í 3. umr. fjárlaga. (Gripið fram í.) Ég trúi þér ekki. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson segist eiga afmæli, (Gripið fram í.) ef svo er þá vil ég óska honum til hamingju með afmælið og vera sérstaklega hamingjusöm í dag í ræðustólnum, þótt ég segist ekki trúa honum. Er það rétt? Til hamingju. Maður veit aldrei hverju maður á að trúa í þessu umhverfi.

Það sem mig langar til að fagna frá meiri hluta fjárlaganefndar er að meiri hlutinn hefur fallið frá 13 millj. kr. lækkun framlaga til umboðsmanns Alþingis. Mig langar til að fagna því sérstaklega enda er þetta embætti mjög mikilvægt og sinnir mjög mikilvægu eftirlitshlutverki fyrir Alþingi, er náttúrlega umboðsmaður Alþingis eins og nafn þessarar gríðarlega mikilvægu stofnunar segir til um. Það er alveg rétt sem segir um þetta og kom fram í málflutningi mínum og annarra hv. þingmanna í 2. umr., að þó að umboðsmaður Alþingis hafi flust í leigulaust húsnæði þá er það húsnæði ekki fullbúið og þar hafa komið inn aðrir rekstrarkostnaðarþættir sem þarf að taka tillit til. Ég fagna því að það hafi haft áhrif og skilað árangri að ræða þetta málefnalega í 2. umr. og sér í lagi fagna ég því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans um að hefja þurfi gott samtal við umboðsmann Alþingis um það hvernig fjármálum embættisins verði háttað í framtíðinni, sérstaklega þar sem hann er kominn í leigulaust húsnæði á vegum hins háa Alþingis, það er þá spurning hver eigi að standa undir rekstrarkostnaðinum.

Breytingartillaga minni hlutans við frumvarpið við 2. umr. um að umboðsmaður Alþingis fái 15 millj. kr. til að sinna frumkvæðisathugunum er lögð aftur fram lítillega breytt. Við leggjum til að umboðsmaður fái 14,7 millj. kr. til að sinna frumkvæðisathugunum. Það kemur fram í áliti hv. stjórnskipunar og eftirlitsnefndar vegna skýrslu umboðsmanns Alþingis að hann þurfi meiri fjárhagslegan stuðning til að geta sinnt frumkvæðisathugunum. Við teljum 14,7 millj. kr. vera hið lægsta sem hægt er að fara fram á eins og staðan er núna til að geta sinnt frumkvæðisrannsóknum á tilskilinn hátt. Það er mjög mikilvægt að breytingartillagan verði samþykkt einfaldlega til þess að álit hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé virt á hinu háa Alþingi sem er náttúrlega grundvöllur fyrir því að þessi nefnd hafi eitthvert vægi. Ég vona innilega að tillagan fái brautargengi hér á þingi í örlítið breyttu formi. Sömuleiðis vil ég fagna því að hv. meiri hluti hafi fengist til að falla frá breytingartillögu sinni um 13 millj. kr. niðurskurð hjá embættinu.

Að öðru leyti langar mig til að minna á breytingartillögu sem ég lagði fram um úrskurðarnefnd upplýsingamála upp á 5 millj. kr. Það kemur sömuleiðis fram í áliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þar þurfi að vinna niður hala þar sem úrskurðarnefndin tekur allt að 200 daga til að afgreiða mál. Það gengur náttúrlega ekki með tilliti til þess hversu viðkvæm sum málin eru þegar kemur að tíma og tímasetningu. Margar af upplýsingabeiðnunum snúast um fréttaflutning og fréttaflutningur er háður því að hann komi fram á réttum tíma svo fréttin hafi enn þá gildi í samfélaginu og sé virk.

Mig langar í tilefni af því að við vorum að samþykkja viðbótarbókun um aðbúnað frelsisvipts fólks og fanga á Íslandi, OPCAT-bókunina svokallaða, að fagna því að meiri hlutinn er að koma með meiri pening í fangelsismálin. Að því sögðu langar mig til þess að vekja athygli á því að það þarf miklu meira í þennan málaflokk og þá sér í lagi á Litla-Hrauni þar sem aðbúnaður fanga er með eindæmum slæmur og einhver hluti af því fé sem hefur verið lagt til í þennan viðkvæma málaflokk, sem eru fangelsismálin, þarf að fara til endurbóta á húsnæði fangelsisins sem og að tryggja starfsöryggi fangavarða og annarra til að fangar fái tilhlýðilega þjónustu og að fangelsið sinni því samfélagslegu hlutverki sem við teljum að fangelsi eigi að sinna. Ég vona að fullgilding bókunarinnar, þessi viðbótarsamningur, muni gera það að verkum að á næsta ári verði ráðist í umtalsverðar endurbætur á fangelsum hér á landi, einfaldlega af því að það er löngu kominn tími til þess. Fangelsi er samfélagsleg stofnun sem á að vera betrunarúrræði en ekki eitthvert hefndarúrræði eins og það var á miðöldum. Það er kominn tími til að byrja að sparsla í lekum húsum þar sem fangarnir búa og reyna að sinna betrunarhlutverkinu almennilega.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra í dag og þakka fyrir að fá að hafa komið að fjárlagavinnunni undanfarna mánuði og það gleður mig mjög að þessu fer nú að linna.