145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað þykir mér leitt að eyðileggja jólaskap sumra hv. þingmanna og ekki síst afmælishald hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarson. En staðreyndin er samt sú að ég er ekki í nokkru einasta jólaskapi og satt að segja aldrei gengið til jóla úr þingsölum jafn dapur og núna. Það liggur fyrir að hér er verið að gera breytingar sem í reynd þýða flutning 10 milljarða kr. til fólks sem ekki þarf á því að halda. Á sama tíma er ekki hægt, segir ríkisstjórnarmeirihlutinn, að greiða öldruðum og öryrkjum sömu hækkanir og allir aðrir í samfélaginu fá. Og það er algerlega hárrétt sem hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir sagði að samfélagið hefur sýnt að það vill sterkt velferðarsamfélag. Það hafa verið gerðar kannanir, mig minnir á vegum Pírata, sem hafa sýnt að samfélagið, 90% Íslendinga, vill að aldraðir og öryrkjar fái sömu bætur og aðrir.

En þó er það þannig, eins og hefur komið í ljós í umræðunum síðustu daga, að það er drjúgur hópur Íslendinga sem er á móti því. Og hvar er þann hóp að finna? Hann er að finna á Alþingi Íslendinga. Hann er að finna í liði sjálfstæðismanna og Framsóknarflokks á Alþingi sem sem einn maður standa gegn tillögum um það að aldraðir og öryrkjar fái þessar bætur. Þótt yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga vilji það er örfámennur hópur sem ekki vill það og því miður, fyrir einhverja gráglettni örlaganna, þá er það fólk allt að finna á Alþingi Íslendinga. Það skulu aldraðir og öryrkjar hugsa um þegar þeir ganga til jóla. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef sennilega oftast áður gengið af Alþingi til jólahalds með miklu meiri gleði í hjarta en í dag.