145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að fara í gegnum þetta mál og nefndarálitið í örstuttu máli. Mér fannst formaður nefndarinnar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, gera það ágætlega. Ég ætla ekki að endurtaka þá hluti. Ég vil hins vegar segja, og ég er ekki að ásaka einn eða neinn, þetta er bara til umhugsunar fyrir okkur hv. þingmenn af því að við erum búin að slá nýtt met við 2. umr. fjárlaga, að það var vitað að við fengjum inn alveg gríðarlega stórar fjárhæðir og það hefur verið vandað til verka. Við í hv. fjárlaganefnd höfum á þessum stutta tíma reynt að fara eins vel yfir málið og mögulegt er. Við erum að tala um mörg hundruð milljarða. Mér finnst ekki góður bragur á vinnulaginu hjá okkur. Við áttum von á þessu og bæði hv. stjórnarliðar og stjórnarandstöðuþingmenn í hv. fjárlaganefnd reyndu að fá alla þá sem við mögulega gátum til að ræða þessi stóru mál á skömmum tíma, en hins vegar verðum við að bæta vinnulagið þannig að við getum við farið dýpra í málin, eins og þessu í tilfelli. Ég held að við ættum í umfjöllun okkar að vera búin að girða fyrir þá áhættu sem við sáum fyrir. Málið hefði átt að fá ítarlegri og betri umfjöllun hjá hv. fjárlaganefnd, en við því var ekkert að gera. Auðvitað munum við ræða þetta í framhaldinu.

Hér er um gríðarlega fjárhæð og hagsmuni að ræða. Við erum nærri því að tvöfalda fjárlögin. Hér er um eignir að ræða sem er ekki alveg ljóst hverjar eru og það hefði verið betra að fara rækilegar í það. Það er hins vegar mjög ánægjulegt að hæstv. ríkisstjórn hafi náð slíkum árangri þegar kemur að afléttingu fjármagnshaftanna og stöðugleikaframlögin eru náttúrlega eitthvað sem menn þorðu ekki að vona fyrir ekki mörgum missirum síðan að gæti gerst. Það er auðvitað mjög ánægjulegt og við hljótum að óska hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn til hamingju með það. (ÖS: Með daginn.)

Til að stikla á stóru í breytingartillögum á gjaldahliðinni — ég ætla ekki að ræða meira um tekjuhliðina í þessari stuttu ræðu — þá er um að ræða 175 milljóna tímabundið framlag til Ríkisútvarpsins til eflingar innlendri dagskrárgerð. Það er skilyrt með þeim hætti að Ríkisútvarpið noti sömu upphæð og það notaði á þessu ári til að kaupa af sjálfstæðum framleiðendum, 450 millj. kr. Þetta tel ég, virðulegi forseti, vera afskaplega mikilvægt. Ég hallast meira á skoðun félaga okkar, fyrrverandi hv. þm. Péturs Blöndals heitins, að við eigum að þróa Ríkisútvarpið í sjóð. Við höfum haft slíka sjóði og erum með slíka sjóði. Við erum að tala um að mikilvægt sé fyrir okkur að efla íslenska tungu. Það þýðir að við þurfum að hafa innlenda framleiðslu þannig að tryggt sé að þeir fjármunir sem við veitum til slíkra hluta, fjölmiðla og í annað slíkt, fari mestmegnis í innlenda framleiðslu. Ég sé enga leið betri en þá að þeir aðilar sem stundi slíkt keppi um það fjármagn eins og er í samkeppnissjóðum. Þess vegna er ánægjulegt að sjá í nefndaráliti hv. fjárlaganefndar talað um og því beint til mennta- og menningarmálaráðherra að í nýjum þjónustusamningi ráðuneytisins og Ríkisútvarpsins verði ákvæði um stighækkandi útboðsskyldu vegna dagskrárefnis á samningstímanum. Þetta held ég að sé besta leiðin, virðulegi forseti, til þess að löggjafinn tryggi að við nýtum fjármunina í innlenda dagskrárgerð.

Síðan er samkomulag um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að það eru gríðarlega háar upphæðir sem við setjum núna í þennan málaflokk til sveitarfélaganna. Það er algjörlega óskiljanlegt af hverju var svona illa búið um hnútana á síðasta kjörtímabili þegar þessi yfirfærsla fór fram. Þeir sem voguðu sér að gagnrýna þetta eða bara spyrja, ég gerði það, sömuleiðis hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson og var öllu ákveðnari — ég ætla ekki að segja að þeir hafi verið hraktir til baka með ónotum og skömmum, en skilaboðin voru skýr, menn skyldu ekkert vera að velta þessu fyrir sér. Eftir rúman áratug var grunnskólinn færður á milli. Það þýddi mikinn núning í mörg ár, en það er augljóst að sveitarfélögin hafa komið mjög vel út úr því. Það er sérmál, ég ætla ekki að ræða það hér. Hins vegar mundi maður ætla að eftir slíkt væru menn búnir að læra það beggja vegna borðsins hvernig best væri staðið að þessu, en því miður er svo ekki. Núna erum við búin að fá niðurstöðu í það mál. Við skulum vonast til að það þýði að sveitarfélögin geti sinnt þessari þjónustu sem best og þeir sem þurfa á þjónustunni að halda muni fá þá þjónustu sem við viljum að þeir fái.

Síðan er Landspítalinn. Enn og aftur er verið að setja fjármuni í viðhald þar. Auðvitað hefði maður viljað sjá að við værum að nýta þessa fjármuni frekar í að byggja nýjan spítala sem er alveg augljóst að þarf að gera. Þetta eru núna 723 millj. kr. Það kom fram á fundi hv. fjárlaganefndar að þær tölur sem hv. stjórnarandstæðingar hafa verið að tala um og vísa í innviðafjárfestingu, um að við séum á milli Mexíkós og Grikklands, eru tölur frá fjárlögum fyrir 2013. Það voru fjárlög sem síðasta ríkisstjórn ákvað. Það er svolítið sérkennilegt að vera að berja á núverandi ríkisstjórn fyrir það. Það er búið að tvöfalda framlögin og núna eru þau allt að því þreföld frá þeim tíma. Auðvitað viljum við sjá eins mikið fjármagn eins og hægt er fara í fjárfestingu á nýjum spítala sem er algjörlega nauðsynlegur.

Þá kemur að hinum þættinum, stóru tölunni, sem er 1 milljarður. Ég hugsa að það sé einstaka stærsta verkefnið hjá okkur. Það er út af breytingu á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Þeim sem eru 67 ára og eldri mun fjölga um 50% á næstu tíu árum. Árið 2061 verður þessi hópur fólks orðinn 100 þúsund. Þessi hópur þarf meira á heilbrigðisþjónustu að halda en aðrir. Við höfum ekki búið okkur undir það.

Heilbrigðiskerfið snýst um meira en Landspítalann. Þar verða allir hlekkir að hanga saman. Landspítalinn er mjög gott bráðasjúkrahús og á að vera það. Það er mikilvægt að það geti sinnt því hlutverki. En við höfum til dæmis vanrækt heilsugæsluna í áratugi. Nú er staðan sú í heilsugæslunni (Gripið fram í.) á höfuðborgarsvæðinu, þar sem staðan er einna best, að þar eru jafn margir læknar undir fertugu og yfir sjötugt — jafn margir læknar eru undir fertugu og yfir sjötugu. Áhersla hæstv. heilbrigðisráðherra núna er að gera stórátak í að efla heilsugæsluna sem er algjörlega nauðsynlegt. Við skulum átta okkur á því að 25% af þeim sem fara á bráðadeild Landspítalans, sem er mjög dýrt úrræði, ættu að fara á heilsugæsluna en geta ekki gert það vegna þess að þau úrræði eru ekki til staðar. Í rauninni gengur heilbrigðisþjónustan út á að fólk þurfi ekki að fara á Landspítalann. Það er gert með forvörnum, ég ætla ekki að ræða það hér, og það er gert með öflugri heilsugæslu. Síðan, þegar fólk er útskrifað eða ætti að vera útskrifað af Landspítalanum, þá verður að hafa einhver úrræði. Það er stóra verkefnið á næstunni.

Það er ánægjulegt að við erum enn og aftur að forgangsraða í þann málaflokk. Þessi liður verður vistaður á safnlið hjúkrunarheimila og gefur möguleika á því að koma með fjölbreytt úrræði sem eru algjörlega nauðsynleg til þess til að létta á Landspítalanum en auðvitað, sem er hin hliðin á peningnum, líka til að fólk fái þjónustu við hæfi, sem er þjónusta sem fólkið á að fá og vill svo til að er ódýrari en sú sem er til staðar. Við erum komin á sama stað og við vorum á þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar tók við. Þá var þetta vandamál uppi. Við leystum það á þeim 22 mánuðum sem við vorum við völd, en síðan kom vandamálið upp aftur. Þetta er kostnaður fyrir Landspítalann og mjög slæmt fyrir fólkið sem þarf á þessari þjónustu að halda.

Virðulegi forseti. Ég vona að við munum núna ræða heilbrigðismálin á dýptina. Það er alveg ljóst og ég hef sagt það hvað eftir annað og mun endurtaka það á meðan umræðan er á þeim stað sem hún er að það er ekki innstæða fyrir stóryrtum yfirlýsingum hv. stjórnarandstöðu þegar hún ræðir heilbrigðismál. Það er þekkt, það kemur (Gripið fram í.) fram, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) í svari fyrrverandi fjármálaráðherra að meira var skorið niður í heilbrigðismálunum og löggæslunni en annars staðar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Reyndar var aukið í umhverfisráðuneytið og aukið í utanríkismálin þegar sú ríkisstjórn þurfti að spara. Ég er ekki að gagnrýna það, virðulegi forseti, að það hefði þurft að spara. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið auðvelt. Ég get alveg skilið að þeim finnist ekki sanngjarnt þegar málin eru lögð upp með þessum þætti. Ég er bara að segja og ég sagði það á síðasta kjörtímabili líka að forgangsröðin var ekki rétt. Nú er það vonandi verkefni okkar allra að halda áfram að forgangsraða í þágu heilbrigðismála. Menn geta ekki sagt hér að það megi ekki tala um prósentur og milljarða og tugi milljarða því að um það snýst málið að stórum hluta. Eitt eru peningar og annað er hvernig við nýtum þá. Þessi ríkisstjórn hefur nýtt þá bæði þegar kemur að heilbrigðismálunum og þegar kemur að lífeyristryggingunum. Þetta vita allir sem vilja vita.

Ég var í ríkisstjórn með Samfylkingunni á sínum tíma. Þá var sömuleiðis forgangsraðað í þágu þessara málaflokka. Ég man ekki eftir því, virðulegi forseti, kannski getur einhver sem var með mér í ríkisstjórn á þeim tíma rifjað það upp, að menn segðu að bætur almannatrygginga væru svo stórkostlega háar að það væri algjörlega frábært. Ég man ekki eftir því. (Gripið fram í.) Ég man ekki eftir því að það hafi gerst á neinum tímapunkti í Íslandssögunni. Nú hef ég ekki verið til frá upphafi Íslandsbyggðar, en hins vegar þekki ég aðeins hvenær tryggingakerfið byrjaði og get fullyrt að það hefur aldrei verið sagt. Því miður verður það aldrei sagt.

Það er ósanngjarnt þegar menn eru búnir að forgangsraða 27 milljörðum meira í lífeyristryggingar núna en var gert áður en þessi ríkisstjórn tók við. Stór hluti af því er til kominn út af ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Það er ósanngjarnt að tala eins og gert er hér í þingsal. Það verður ekki aftur tekið.

Vonandi berum við gæfu til þess að ræða þessa tvo mikilvægu málaflokka á dýptina, annars vegar heilbrigðismálin, þ.e. hvernig við tökumst á við þau gríðarlega stóru verkefni sem eru fram undan, og hins vegar lífeyrismálin. Ég vona að við berum gæfu til þess að sameinast um að klára það verkefni sem Péturs Blöndals-nefndin fór í, að leggja meiri áherslu á starfsmat í staðinn fyrir örorkumat og ýmislegt annað sem þar er. Ef við gerum það held ég að við náum hámarksárangri og reyndar held ég að virðing Alþingis muni vaxa. En til þess að svo megi verða verðum við öll að leggja eitthvað á okkur.