145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að menn tala mikið um Ríkisútvarpið, og það er bara alveg sjálfsagt, þá finnst mér svolítið vanta í þá umræðu að í fjáraukanum var gert ráð fyrir að það fengi til að greiða niður skuldir 1,5–2 milljarða með sölu eigna. Fram kom í nefndinni að verið er að greiða niður lán sem bera 8% vexti, og það er vel. Einnig kemur fram í nefndarálitinu að tekjur hafa verið aukast núna og munu aukast um 60 milljónir á ári af því að stjórn Ríkisútvarpsins — og hafi hún þökk fyrir, ég held að það hafi verið skynsamlegt og vel gert — hefur verið að leigja út hluta húsnæðisins.

Síðan er það það sem hv. þingmaður nefndi, þetta er til að efla innlenda dagskrárgerð að kaupa af sjálfstæðum framleiðendum. Það er alveg skýrt. Ríkisútvarpið kemur með 450 milljónirnar á móti. Það er auðvitað eitthvað sem menn alla vega í orði kveðnu eru sammála um að þurfi að gera. Ég heyri að vísu þau sjónarmið að ekki eigi að kaupa efnið utan húss heldur að leggja áherslu á að gera það innan húss. Ég skil ekki alveg það sjónarmið. Það kemur til dæmis fram í ágætri skýrslu Eyþórs-nefndarinnar svokölluðu að á Norðurlöndunum er oft sett ákveðið viðmið um að viðkomandi ríkisútvarp þurfi að vera með ákveðið lágmark sem það kaupir af öðrum framleiðendum. Ég veit ekki hvernig er hægt að misskilja það eitthvað. Ég mundi nú ætla að þetta væri eitthvað sem menn mundu geta sameinast um.

Hvað varðar rekstur útvarpsins almennt þá eru margir möguleikar í því. Við leggjum áherslu á hvernig best er að gera það. Við leggjum áherslu á það í nefndarálitinu af því að það kom fram í hv. fjárlaganefnd að hægt væri að vinna ýmsa hluti betur, t.d. þegar kemur að fjarskiptunum, að koma efninu áleiðis, (Forseti hringir.) að þá gætu opinberir aðilar örugglega unnið saman þar — ég get farið betur í það í seinna andsvari mínu — til að lækka þann kostnað ef menn eru að hugsa um að ná betri árangri í rekstrinum.