145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja á því að víkja að fullyrðingum sem fram komu hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um niðurskurð til útgjalda ríkisins á liðnu kjörtímabili. Ég hef legið talsvert yfir því hvernig þeim niðurskurði var varið og hef ég aldrei á nokkurn hátt verið að reyna að fela það sem þar var gert og ég hef lýst því yfir að við skárum of mikið niður til einstakra þátta, við skárum of mikið niður til heilbrigðismálanna og það má segja það líka um löggæsluna þannig að ég er ekkert að hlaupast undan því, alls ekki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér um þetta og ef við skiptum þessu í þrennt þá var niðurskurðurinn hlutfallslega minnstur til almannatrygginga. Síðan lá rekstrarkostnaður ríkisins á bilinu 20–25% að raungildi sem er mjög mikið, enda var það svo að niðurskurður til löggæslunnar nam tæpum 3 milljörðum kr. og munar um minna. Niðurskurðurinn til heilbrigðisþjónustunnar var líka gríðarlegur og hafði það meðal annars í för með sér að 500–600 störf töpuðust á Landspítalanum sem er náttúrlega stór vinnustaður, en niðurskurðurinn var með þeim hætti. Ég vil leggja áherslu á þetta. Ég er ekki að draga úr því að hann hafi verið mikill. Niðurskurðurinn var engu að síður mestur þegar kom að fjárfestingum. Þar voru það samgöngumálin fyrst og fremst, þar var niðurskurðurinn mestur. Ég man eftir tölum hvað þetta snerti úr innanríkisráðuneytinu, við höfðum fyrir hrun varið að því er mig minnir um 30 milljörðum í framkvæmdir en þær fóru niður í 15 milljarða. Ég hef fyrirvara á þessum tölum, en þetta voru stærðargráðurnar. Þarna var stóri niðurskurðurinn. Þetta langaði mig til að segja í upphafi.

Síðan eru þrír þættir sem ég vil gjarnan víkja að í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Það er fyrst Landspítalinn. Að sjálfsögðu er gott að fá þetta viðbótarfjármagn frá stöðunni eins og hún var eftir 2. umr. fjárlaganna, að sjálfsögðu fagna ég því, en tel þetta engu að síður ekki vera nóg og hef horft til þess og byggi á því sem hefur komið frá forsvarsmönnum Landspítalans um að hærri upphæð þurfi en sem nemur þessari viðbót. Og við þekkjum náttúrlega, mér liggur við að segja af eigin raun til starfseminnar á einhvern hátt í heilbrigðiskerfi okkar og vitum að þar er víða stakkur of þröngt sniðinn, þar á meðal á Landspítalanum. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma.

Varðandi almannatryggingar og öryrkja og aldraða þá hafa deilurnar verið á þann veg að menn hafa verið að bera saman framlag á síðasta kjörtímabili og núna og horft líka til þess hvað það er sem lögin kveða á um. Það er alveg rétt sem sagt hefur verið að lögin kveða á um að bætur almannatrygginga skuli taka mið af öðru tveggja, launaþróun eða verðlagsþróun og skal miða við það sem er hærra. Þetta þótti mönnum vera ákveðinn öryggisventill á sinni tíð þegar það var sett í lögin á síðari hluta 10. áratugar síðustu aldar. Áður hafði viðmiðunin verið lægstu launataxtar sem þóttu tryggari fyrir þessa lágtekjuhópa í þjóðfélaginu og ekki síst þegar horft er til þess að verkalýðshreyfingin hefur lagt sérstaka áherslu á að hækka lægstu kauptaxtana.

Burt séð frá þessu, að þarna er hið lagalega gólf, þá þurfum við að horfa til þess hvað er gerlegt í þjóðfélaginu og hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Þar hefur verið vísað til þess að í kjarasamningum á vinnumarkaði hafa verið gerðir afturvirkir samningar. Deilan um fjáraukann stóð um þetta náttúrlega, þessa afturvirkni. Að sama skapi horfa menn til þess núna hvort ekki sé siðferðilega og hagfræðilega rétt að bæta í gagnvart þessum hópum í ljósi þess sem er að gerast í þjóðfélaginu. Ég tek undir það.

Mig langar til að minna á þingmál sem ég flutti hér mínu fyrsta þingári 1995 þar sem ég lagði til að kjaradómur og kjararáð yrðu lögð af og að sumir hópar sem heyrðu undir þessa aðila færu inn í kjarasamninga stéttarfélaganna. Það hafði fjölgað of mikið í þeim hópum sem heyrðu undir kjaradóm og kjararáð að mínu mati og ég vildi að hluti færi aftur inn í kjaraumhverfi stéttarfélaganna, en kjör annarra yrðu ráðin af launanefnd sem gerði tillögur til Alþingis og Alþingi samþykkti síðan niðurstöðurnar eða hafnaði eftir atvikum, þar með launum til þingmanna. Ástæðan var sú og ég er enn þá fylgjandi þessu fyrirkomulagi, að í öllum svona ákvörðunum þarf að vera hægt að draga menn til ábyrgðar. Þeir sem taka ákvarðanir þurfa að sæta ábyrgð. Þegar kjarasamningar eru gerðir á almennum vinnumarkaði þá ganga þeir til samþykktar eða synjunar beggja veginn hjá atvinnurekandavaldinu og hjá launafólkinu. Ef fólk er ósammála á öðrum vængnum þá er samningurinn felldur. Ef menn eru óánægðir með framgöngu sinna manna þá er yfirleitt í verkalýðshreyfingunum hægt að setja menn af í lýðræðislegum kosningum á þingum þessara sambanda. Með öðrum orðum, það er einhver ábyrgur og það er hægt að draga einhvern til ábyrgðar. Þetta á ekki við um kjaranefnd og kjaradóm. Þessir aðilar eru alveg öllum óháðir en eiga ekki að vera það. Mér fannst ákveðið fallegt samræmi í því, og þetta rifjast upp núna þegar menn tala um þingið sem kjaradóm eða kjararáð fyrir öryrkja og aldraða, að við mundum gera tvennt í senn, ákvarða kjörin til þessara hópa sem eiga allt sitt undir okkar ákvörðunum komið og til okkar sjálfra. Við gætum ákveðið og staðfest þingmannalaunin og ráðherralaunin á miðvikudegi, svo kjörin til öryrkja og aldraðra daginn eftir á fimmtudegi. Þar held ég að menn fengju þá aðeins aðra sýn á málin. Þar getur enginn firrt sig ábyrgð lengur. Mig langaði til að vekja athygli á þessu en ætla ekki að fara nánar út í þá sálma enda ætla ég ekki að halda langa ræðu.

Ríkisútvarpið er þriðji þátturinn sem mig langaði að koma að. Nú skal það áréttað sem ég gerði áður að ég er ekki vel að mér í fjármálum Ríkisútvarpsins í neinum smáatriðum, það er ég ekki. Ég hef hlustað eftir áherslum manna. Ég hef hlustað eftir áherslum sem fram hafa komið í máli forsvarsmanna Ríkisútvarpsins og ég hef hlustað eftir áherslum sem fram hafa komið hjá meiri hluta fjárlaganefndar. Ég hef skilið það svo að rekstur Ríkisútvarpsins standi í járnum og að skerðing á framlaginu frá því sem nú er og byggir á útvarpsgjaldi sem nemur 17.800 kr. muni þýða einhvern samdrátt í starfseminni. Nú erum við með þetta gjald og færum það niður samkvæmt þessu í 16.400 kr. Þarna verður einhver skerðing, allmikil skerðing, þótt ég ítreki að ég sé ekki inni í þessum fjárhagslegu þáttum nákvæmlega. Það sem kom hins vegar inn til viðbótar er í rauninni engin viðbót. Það er skilyrt framlag til að sinna tilteknum þáttum og hverjir eru þeir? Þeir eru innlend dagskrárgerð á vegum sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda, á vegum sjálfstæðra framleiðenda. Er þetta þá til að standa straum af kostnaði við það sem þegar í rekstri Ríkisútvarpsins? Nei, þetta er til eflingar. Þarna erum við að fást við ákveðna mótsögn, það er annars vegar skerðing sem Ríkisútvarpið sætir og síðan er talað um að efla dagskrárgerð sem fram fer utan stofnunarinnar.

Nú vil ég segja að endanlegt markmið þeirra sem ákafast vilja standa vörð um Ríkisútvarpið er náttúrlega að efla innlenda dagskrárgerð. Slagurinn hefur þá staðið um það og hefur gert áratugum saman að hvaða marki það á að felast í aðkeyptu efni og að hvaða marki það eigi að felast í framleiðslu innan búðar. Ég held að það séu allir sammála um að þetta á að vera blanda af þessu tvennu. Að sjálfsögðu kaupum við efni utan Ríkisútvarpsins, það hefur alltaf verið gert, og ég er algerlega opinn fyrir þeim hugmyndum sem hafa verið reifaðar um að búinn verði til sjóður til að efla innlenda dagskrárgerð og stofnanir almennt sem eru í útvarps- eða sjónvarpsrekstri séu látnar njóta góðs af því. En það má aldrei ganga það nærri Ríkisútvarpinu að hin stofnanalega umgjörð verði svo veik að það hafi ekki lengur burði til þess að framleiða efni.

Ég skrifaði um það um daginn að fyrir stuttu var sýnt viðtal, svo lítið dæmi sé tekið um þátt sem kostaði ekki mikla peninga, við breska þingmanninn Austin Mitchell sem var sæmdur fálkaorðunni fyrir framlag sitt til samskipta Íslendinga og Breta á dögum þorskastríðsins. Dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu gerði viðtalsþátt við Austin Mitchell. Hann var unninn af gríðarlegri fagmennsku og þekkingu sem er til í þeirri stofnun í þeim manni Boga Ágústssyni í þessu tilviki sem gerði þennan ágæta þátt. Við þurfum að hafa á að skipa færu fólki í dagskrárgerð og við þurfum að hafa á að skipa færum fagmönnum líka, kvikmyndatökumönnum, hljóðmönnum, færu fagfólki. Ef við tökum öll krefjandi verkefni frá þessu fólki og útvistum þeim öllum þá veikjum við þessa stofnanalegu umgjörð.

Ég óttast að með þessari skilyrðingu gagnvart stofnun sem er fjárhagslega aðkreppt sé verið að veikja Ríkisútvarpið. Ég horfi til þess að í allri þessari umræðu hefur hæstv. menntamálaráðherra stundum vísað í þjónustusamning við Ríkisútvarpið. Mér leikur forvitni á að vita hvaða áherslur verða þar uppi. Er þar talað um að útvista frekar, að gera Ríkisútvarpið að eins konar skel, tómri skel, sem sýni og komi á framfæri efni sem er framleitt af öðrum, eða er stefnan sú að hafa blómann í lagi inni í þessari skurn þannig að framleiðslugetan sé fyrir hendi? Og ef svo er þá þarf í fyrsta lagi að huga að skilyrðingum eins og þeirri sem kemur fram í greinargerðinni, nota bene, hún kemur ekki fram í sjálfum lagatextanum, og síðan í þessum þjónustusamningi.

Mig langar til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra og biðja hann um að koma að því, hvort sem hann gerir það í ræðu eða atkvæðaskýringum: Hvað hyggst hann fyrir með þessum þjónustusamningi? Kemur hann til umræðu á Alþingi? Að sjálfsögðu ætti hann að gera það vegna þess að í honum er fólgin stefna Ríkisútvarpsins. Mér finnst að löggjafinn hljóti að koma að umræðu um þennan þjónustusamning þegar þar að kemur.