145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að áfram er heilmikill vandi í rekstri Ríkisútvarpsins. Það hefur komið fram og meðal annars í þeirri skýrslu sem kennd er við Eyþór Arnalds. En ég hjó eftir því að formaður stjórnar Ríkisútvarpsins, Guðlaugur G. Sverrisson, segir í fréttum í dag að hann telji þá lausn sem hér er komin í málið ágæta. Hann segir að vissulega þrengi að, staðan sé þröng, en þetta sé ágæt niðurstaða til að vinna úr. Hann bendir einnig á að þegar horft er til þeirra fjármuna sem verja á til Ríkisútvarpsins þá blasi við að með þessari viðbót upp á 175 millj. kr. sé komin sama fjárhæð og var á þessu ári. Við bætast síðan áætlaðar 60 millj. kr. sem eru vegna fleiri gjaldenda þannig að það verður þá hærri fjárhæð á næsta ári sem því nemur. Við bætist einnig að verið er að láta Ríkisútvarpið hafa möguleikann á því að selja þá lóð sem hefur verið til umræðu sem gerir að verkum að 1,5 milljarðar koma til að lækka skuldirnar (Forseti hringir.) sem mun leiða til u.þ.b. 90 millj. kr. lægra vaxtagjalda á ársgrundvelli. Þannig að það að halda því fram að verið sé að skera niður á milli ára stenst auðvitað enga skoðun, virðulegi forseti.