145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru náttúrlega bara tölur og staðreyndir sem liggja fyrir. Ég hef alltaf sagt að fjárfestingin var fyrst og fremst tekin niður. Við getum rætt það alveg sérstaklega. Það er ekki aðeins fjöldinn heldur líka hlutfallið. Það var hlutfallslega mest í heilbrigðismálunum, 7,3%, og næstmest í dómsmálunum, aðallega voru það lögreglumenn, 5,3%, á meðan er bætt við og að meðaltali voru þetta 4,2%, þannig að bæði heilbrigðismálin og löggæslan, að stærstum hluta var þetta löggæsla, þetta var auðvitað fleira, er langt fyrir ofan meðaltal, sérstaklega heilbrigðismálin. En síðan þegar við förum í hina áttina erum við með umhverfisráðuneytið, þar er bætt við, 8,5%, og sömuleiðis í utanríkismálunum. Ég held að það sé mjög gott að við ræðum þetta við betra tækifæri vegna þess að þessar tölur liggja allar fyrir. Það er sama hvort það er hlutfallslegt eða fjöldinn, sparnaðurinn er alltaf mestur í heilbrigðismálunum.