145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Eftir stendur og til frambúðar sú ákvörðun að fara með útvarpsgjaldið úr 17.800 kr. niður í 16.400 kr. Það er það sem máli skiptir varðandi framtíð Ríkisútvarpsins. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Það á að kalla hlutina réttum nöfnum. Það á ekki að koma með framlag undir því yfirskyni að verið sé að rétta af þennan mismun í þessum tveimur tölum sem við vísum til, annars vegar útvarpsgjald á þessu ári og komandi ári. Það er ekki verið að leiðrétta það til frambúðar með þessu skilyrta framlagi, ég tek algerlega undir það sem hann segir hér.

Síðan er hitt, og mér finnst það mikilvægt sem fram kom hjá hæstv. menntamálaráðherra, að við þurfum að fá aðkomu að þjónustusamningnum við Ríkisútvarpið. Það er mjög mikilvægt. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði hér: Við eigum ekki að stýra ríkisútvarpinu. Jú, að sjálfsögðu gerum við það, við erum að gera það með þessum ákvörðunum um fjárframlög. Þar setjum við rammann og við eigum líka að geta fengið aðkomu að umræðu um meginmarkmið í þjónustusamningi sem gerður er við Ríkisútvarpið, ekki um einstaka þætti eða framkvæmd í smáatriðum heldur um meginlínurnar. Þess vegna fagnaði ég því þegar hæstv. menntamálaráðherra sagði að þjónustusamningur yrði kynntur hér á Alþingi — og ekki bara kynntur, heldur gætum við tekið hann til umræðu. Það finnst mér vera mjög mikilvægt.

En eftir stendur að verið er að skerða framlög til Ríkisútvarpsins. Ég er sammála hv. þingmanni.