145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hér hljóðs í 3. umr. fjárlaga til að segja stuttlega frá þeirri skoðun minni á breytingartillögunni sem liggur fyrir hvað varðar Ríkisútvarpið ohf., þ.e. að því verði veitt sérstakt aukaframlag. Það er rökstutt í greinargerðinni með nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að framlagið eigi að renna til innlendrar dagskrárgerðar.

Það kom fram hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra áðan að rétta leiðin til að setja fram áherslur stjórnvalda þegar kemur að mótun dagskrárstefnu fyrir Ríkisútvarpið er annars vegar í höndum stjórnar Ríkisútvarpsins sem kjörin er hér á þingi sem hefur það hlutverk lögum samkvæmt að móta dagskrárstefnu og hins vegar í gegnum þjónustusamning hæstv. ráðherra við stofnunina.

Ég vil byrja á að segja að það er auðvitað til réttur ferill þegar um er að ræða ákvarðanir sem snúa að því að ákveða hvernig nákvæmlega á að haga málum í dagskrá Ríkisútvarpsins. Það er annars vegar í gegnum samning hæstv. ráðherra, og hann greindi frá því hér áðan að hann hygðist gefa þinginu skýrslu um samninginn og mér finnst það hið besta mál, og hins vegar er það auðvitað stjórn stofnunarinnar eða félagsins eða hvað við viljum kalla það sem hefur þetta hlutverk formlega með höndum.

Mér finnst sérkennilegt að sjá þessi tilmæli hér. Meiri hluti fjárlaganefndar getur haft skoðun á því en auðvitað liggur ákvörðunarvaldið þarna. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé sagt hér og ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra væri sammála þeim skilningi mínum. Síðan vil ég segja hins vegar að mér finnst enginn bragur á því að veita fjármuni til Ríkisútvarpsins með þessum hætti. Ef ég man samþykktir flokksþings Framsóknarflokksins rétt var sérstaklega talað um að útvarpsgjaldið væri hin eðlilega fjármögnunarleið og að það ætti að renna óskipt til stofnunarinnar. Hin eðlilega fjármögnunarleið er að Ríkisútvarpið hafi sérstakan tekjustofn. Hann var áður fyrr afnotagjöld en eftir heilmiklar umræður hér 2007 var samþykkt að setja á þetta blessaða útvarpsgjald að tillögu hæstv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Hugsunin var sú að Ríkisútvarpið byggi við sérstakan tekjustofn og hefði ákveðinn fyrirsjáanleika. Alveg sama þó að sá tekjustofn þurfi alltaf að fara í gegnum afgreiðslu fjárlaga á hverjum tíma er það samt svo að ef sameiginlegur skilningur ríkir á þinginu um að þetta sé tekjustofninn býr Ríkisútvarpið við ákveðinn fyrirsjáanleika. Það getur séð fyrir hvert útvarpsgjaldið er og gert áætlanir til lengri tíma.

Það sem er bagalegt í þessu er að Ríkisútvarpið hafði réttmætar væntingar eftir yfirlýsingar hæstv. ráðherra hér í vor um að útvarpsgjaldið yrði ekki lækkað. Það er verið að gera áætlanir sem miða að því að gjaldið verði ekki lækkað. Ég er afar ósátt við þá niðurstöðu að fallið hafi verið frá þeim hugmyndum og að hæstv. ráðherra hafi ekki fengið stuðning við frumvarp sitt því að mér finnst þetta sýna gríðarlegan glundroða í málefnum Ríkisútvarpsins. Það eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð þegar kemur að þessari stofnun sem er mikilvæg menningarstofnun en líka mikilvæg samfélags- og lýðræðisstofnun svo ég vitni aftur í samþykkt síðasta landsfundar Framsóknarflokksins sem ályktaði um Ríkisútvarpið.

Ég vil fyrst og fremst lýsa þessari afstöðu. Mér finnst þetta ekki rétt aðferðafræði. Við ættum fremur að sammælast um að útvarpsgjaldið sé sá tekjustofn sem Ríkisútvarpið fái. Við ættum að reyna að sammælast um upphæð þess gjalds og að tekjustofninum sé ekki breytt nema á einhverjum tilteknum fresti þannig að það sé fyrirsjáanleiki í fjárveitingu til Ríkisútvarpsins.

Úr því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er í salnum langar mig að nefna hér það sem við höfum aðeins rætt í þessum umræðum um fjárlögin, það hversu furðulegt það er að við skulum við hverja einustu fjárlagaumræðu standa hér og rífast um Ríkisútvarpið. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér sem einhverja lausn á því til lengri tíma, til að forða okkur frá þessu árlega rifrildi um Ríkisútvarpið, að fara þá leið sem margar nágrannaþjóðir okkar hafa farið á Norðurlöndunum og það er að útbúa einhvers konar sáttmála um Ríkisútvarpið sem yrði unninn í samvinnu flokkanna á Alþingi en líka í samvinnu við aðra aðila úti í samfélaginu? Þetta er ekki einkamál okkar, þetta er almannaútvarp, eign þjóðarinnar. Við erum vissulega fulltrúar þjóðarinnar en líka ákveðinnar hugmyndafræði og stjórnmálaskoðana og það er mikilvægt að fá sem flesta að þessu borði þannig að við gætum reynt að ná einhverri lengri tíma sátt um Ríkisútvarpið án þess endilega að landsfundarsamþykktir einstakra flokka ráði þar för.

Er hæstv. ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því? Ég ítreka í lok minnar stuttu ræðu að mér finnst þetta ekki góð vinnubrögð, mér finnst þau ekki til eftirbreytni og ég er ósammála þeim. Mér þykir dapurlegt að við getum ekki sammælst um það hér að útvarpsgjaldið sé með fullnægjandi hætti, að við getum ekki staðið við bakið á hæstv. ráðherra sem lagði fram tillögu um annað og reynt að tryggja frið um Ríkisútvarpið.