145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar þá fjármuni sem Ríkisútvarpið hefur til umráða á næsta ári og fyrirsjáanleika um það o.s.frv. vil ég benda á eftirfarandi: Í fjárlögum þeim sem nú eru í gildi fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið hafi 3.663 milljónir til ráðstöfunar. Ef við tökum þá tölu og verðbætum hana um 2,5%, sem er ekkert óeðlileg krafa, stendur talan í 3.754 milljónum.

Þegar við skoðum stöðuna núna, að því gefnu að þessar 175 milljónir verði samþykktar, mun Ríkisútvarpið hafa til ráðstöfunar á næsta ári 3.725 milljónir. Hvernig er sú tala fengin? Jú, það er upphaflega talan sem lögð var til í fjárlagafrumvarpinu að viðbættum 175 milljónum, að viðbættum þeim 60 milljónum sem munu bætast við vegna fleiri gjaldenda.

Það stendur á pari. Ég held að það muni örfáum milljónum á milli þess sem hefði verið ef upphæðin hefði haldið sér sem er á þessu ári, verðbætt um 2,5%, og það sem við síðan sendum til Ríkisútvarpsins frá þinginu til ráðstöfunar á næsta ári.

Það er staðan, virðulegi forseti.

Hv. þingmaður nefnir hérna nokkuð áhugavert, sáttmála um fjölmiðla og fjölmiðlastarfsemina að norrænni fyrirmynd. Ég átti fyrir stuttu fundi með menningarmálaráðherra Danmerkur þar sem ég kynnti mér meðal annars hvernig þeir standa akkúrat að þeim þætti málsins. Því vil ég segja að ef sú hugmynd sem ég hef reifað hér gengur eftir held ég að það væri skref í þá átt sem hv. þingmaður er hér að ræða, þ.e. byrja á því að taka þennan þjónustusamning inn í þingið, helst áður en búið er að skrifa undir hann þannig að þingmenn geti komið fram athugasemdum og skoðunum á sáttmálanum áður en gengið er frá honum þó að hann sé auðvitað á ábyrgð þess ráðherra hverju sinni sem fer með menntamálin og menningarmálin. Ég held að það sé sjálfsagt mál að skoða í framhaldinu.