145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur auðvitað fyrir að það er umtalsverður rekstrarvandi hjá Ríkisútvarpinu. Hann hefur vaxið, m.a. vegna launahækkana á þessu ári og næsta. Þess vegna var kallað eftir skýrslu og skoðun á fjármálum þess og við vitum betur núna og gerum okkur betur grein fyrir stöðu mála en áður var.

Af því að hv. þingmaður spyr mig sérstaklega um fyrirheit fylgdi því auðvitað að þetta væri skoðun mín en það væri aldrei hægt að binda hendur Alþingis. Hv. þingmaður veit auðvitað að fjárveitingavaldið liggur hér.

Ég hef beitt mér fyrir ákveðinni lausn á málinu og tel að sú lausn sé viðunandi fyrir næsta ár. Ég bendi á að framlagið á næsta ári verður í krónum talið á mjög svipuðu róli, skeikar örfáum milljónum, eins og er á þessu ári með verðbótum. Þá bætist það við að Ríkisútvarpið mun ná fram niðurfellingu á skuldum sínum eða greiða þær niður vegna lóðaréttindasölu sem þýðir að fjármagnskostnaðurinn fer að lækka á hverju ári um um það bil 90–100 millj. kr. sem bætast þá hér við.

Það breytir ekki þeirri stóru spurningu sem hv. þingmaður spyr sem snýr að útvarpsgjaldinu sjálfu og samhengi hlutanna. Ég skil vel hvað gerðist hér á síðasta kjörtímabili, ég veit í hvaða vanda síðasta ríkisstjórn var. Ég veit alveg hvers vegna menn gripu til þeirra ráðstafana sem gert var.

Aftur á móti velti ég fyrir mér þegar kemur að þeirri ákvörðun að taka hluta af útvarpsgjaldinu inn í ríkisreksturinn hvort það hefði verið heillavænlegra fyrir þetta mál að lækka útvarpsgjaldið en hækka einhverja skatta á móti ef ríkið vantaði meiri fjármuni frekar en að búa til það fordæmi sem ég held að hafi ekki verið gott eftir á, að búa til það fordæmi að það væri rof á milli útvarpsgjaldsins annars vegar og hins vegar þess fjárframlags sem færi til útvarpsins.

Þetta er mál sem við getum rætt hér. Ég ítreka að ég skil af hverju en ég velti fyrir mér svona eftir á að hyggja hvort þarna hafi ekki orðið til óheppilegt fordæmi.