145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að ítreka þær afmælisóskir sem ég hef þegar flutt hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Sömuleiðis vil ég óska þess að hann eigi langt og hamingjuríkt líf fyrir höndum og marga góða afmælisdaga. En ég vona þó að hann spilli aldrei sínum eigin afmælisdegi nokkru sinni aftur með því að halda ræðu af þeim toga sem hann flutti hér fyrr í dag. Hún fjallaði aðallega, fannst mér, og það sem eftir stóð af þeirri ræðu, um það hvernig honum fannst síðustu ríkisstjórn hafa tekist upp, hversu óhöndugleg honum fannst, eins og hann sagði, forgangsröðun hennar hafa verið. Nú hefði ég talið á þessum tímamótum, bæði í lífi hv. þingmanns og sömuleiðis þegar við erum hér að samþykkja fjárlög sem hefðu getað verið mjög góð miðað við það blússandi góðæri sem er, að hv. þingmaður hefði kannski átt að beina sjónum sínum svolítið að sinni eigin ríkisstjórn og sínu eigin fjárlagafrumvarpi í staðinn fyrir að eyða öllum tíma sínum gikkfastur í fortíðinni. En það er hins vegar alveg sjálfsagt að hressa upp á afmælisdag hv. þingmanns með því að fara örlítið yfir forgangsröðun þeirrar ríkisstjórnar sem starfaði undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur og síðan þessarar sem hv. þingmaður styður og er undir forsæti hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Svo að það sé algerlega skýrt var forgangsröðun síðustu ríkisstjórnar mjög afdráttarlaus og skýr. Hún byggðist á því að reyna að skera niður það sem hægt var að skera niður. Eins og hv. þingmaður veit tók sú ríkisstjórn við ákaflega erfiðu búi. Hún tók við fjárlagahalla sem opnaðist þegar tekjustofnar ríkisins veiktust mjög skyndilega, hrundu nánast á einni viku, og leiddi til þess að það fossuðu út um götin á ríkissjóði um það bil 217 milljarðar. Þetta var það sem sú ríkisstjórn stóð frammi fyrir. Að tala hér eins og afmælisbarnið, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, gerði í dag, eins og það væri einhverju saman að jafna þeirri stöðu sem ríkisstjórnin stóð þá andspænis ellegar núna þegar við erum komin út úr kreppunni og Landsbankastjórinn kallar árferðið í efnahagsmálum blússandi góðæri; það er auðvitað engu saman að jafna og mjög ósæmilegt af þeim hv. þingmönnum stjórnarliðsins sem tala eins og það hafi verið af hreinni meinbægni og illkvittni sem síðasta ríkisstjórn greip til þess ráðs, sem þá var óhjákvæmilegt, að reyna að skera niður hvarvetna í ríkisbúskapnum.

Bara svona til að rifja það upp þá má kannski minna á að það voru fáar tillögur sem við settum hér fram til niðurskurðar sem þáverandi stjórnarandstaða hafði ekki skilning á með þeim hætti að annaðhvort sitja hjá eða samþykkja. Ég man ekki eftir því að þær tillögur sem við lögðum þá nauðbeygð fram hafi mætt mikilli mótstöðu hér á hinu háa Alþingi, að minnsta kosti ekki framan af og alls ekki á árinu 2009. En eins og ég sagði, okkar viðleitni miðaðist við að skera þar niður sem skera mátti, þar sem var auðvelt að skera niður í fyrsta lagi, og feta okkur síðan líka í aðra og erfiðari málaflokka. Sömuleiðis var það okkar stefna að reyna að verja þá sem verst voru staddir. Bara til að rifja það upp þá var það í tíð Samfylkingarinnar sem sex sendiskrifstofum og sendiráðum var lokað. Það var í tíð Samfylkingarinnar og fyrri ríkisstjórnar sem vissulega var farið í að skera niður ákveðna hluti í almannatryggingakerfinu. Með hvaða hætti var það gert? Jú, þá ætla ég fyrst að rifja það upp að þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar sat undir forsæti Geirs H. Haardes beitti hún sér fyrir því árið 2007 að skerðingar í almannatryggingakerfinu gagnvart atvinnutekjum og lífeyristekjum voru minnkaðar verulega. Þær voru teknar úr 45% í 38%. Því var á þeim tíma fagnað sem mjög merkilegu skrefi. Þetta gerði sú ríkisstjórn. Það sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði hins vegar var að færa skerðingarnar aftur í fyrra horf. Með öðrum orðum: Skerðingarnar voru þrátt fyrir allt ekki meiri en svo að þær voru felldar í það horf sem þær höfðu verið langbestar í lýðveldissögunni fyrir upphaf ríkisstjórnar Geirs H. Haardes árið 2007. Það var nú ekki meira en það. Annað gerðum við líka. Við slógum vörð um þá sem voru einungis á strípuðum bótum í kerfinu. Þar var hvergi hreyft við krónu. Svo að það sé algerlega skýrt, og hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur örugglega gaman af því að ég rifji upp þá sögu, þá var það þannig að þegar kjarasamningar voru gerðir hér á miðju ári 2011 var sú hækkun látin ganga yfir almannatryggingakerfið. Þegar menn samþykktu í þeim kjarasamningum 51 þús. kr. einsskiptisgreiðslu gekk það líka yfir aldraða og öryrkja. Bara svo að það liggi fyrir. Þannig að forgangsröðun þeirrar ríkisstjórnar var þannig að við skárum niður sendiráð, skárum niður í utanríkisþjónustunni, skárum niður sendiskrifstofur en við stóðum vörð um þá sem verst voru staddir. Ég vísa til orða tveggja hv. þingmanna stjórnarliðsins sem hafa tekið undir þetta, hv. þm. Karls Garðarssonar og hv. þm. Brynjars Níelssonar.

Þetta var forgangsröðun síðustu ríkisstjórnar. En hvernig er forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar? Jú, við sjáum að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson telur að það sé sérstakt hlutverk sitt að taka þátt í því í fyrsta lagi að búa til nýja ríkisstofnun sem heitir Stjórnstöð ferðamála og stendur til hliðar við tvær aðrar stofnanir á sviði ferðamála. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ætlar hér á eftir að taka þátt í því að opna sendiráð í Strassbourg sem ég lokaði á sínum tíma til þess að spara fé skattborgaranna. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ætlar líka að taka þátt í því að búa hér til nýtt embætti sem heitir húsameistari ríkisins. Þessi ágæti maður, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem var að fordæma forgangsröðun fyrri ríkisstjórnar, kemur hér og hleður fitulögunum utan á ríkiskerfið. Fyrr má nú fyrrvera, segi ég. Að sama skapi kemur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, ásamt öllum félögum sínum í stjórnarliðinu, og ætlar að fella, eins og hann hefur stráfellt hér dag eftir dag, tillögur um afturvirkar hækkanir á bótum til öryrkja og aldraðra. Ja, þetta er hans forgangsröðun. Við skulum svo sjá það á eftir með hvaða hætti hv. þm. Ásmundur Friðriksson bregst við þeirri tillögu.

En það er ekki bara það, herra forseti. Forgangsröðunin birtist líka í því að á sama tíma og hv. þingmenn stjórnarliðsins koma hingað með augun flóandi af tárum krókódílsins og segjast svo sannarlega vilja styðja aldraða og öryrkja en ríkissjóði sé féskylft, það vanti fjármagn til að geta stutt þessa hópa með sama hætti og sanngjarnt væri, hvað er þá að gerast á hitt borðið? Ætli hv. þm. Ásmundur Friðriksson geri sér til dæmis grein fyrir því að hér hafa með kyrrlátum hætti runnið í gegnum Alþingi á síðustu tveimur dögum breytingar á skattkerfinu sem í reynd fela í sér að það er verið að flytja fjármagn í gegnum skattalækkanir í tekjuskattskerfinu til þeirra sem síst þurfa á að halda? Ég fæ ekki betur séð en að þær breytingar sem hér hafa verið gerðar á samsköttun kosti þrjá og hálfan milljarð. Hverjum nýtast þær best? Mönnum eins og mér. Fólki sem er með 700 þús. kr. plús í tekjur. Hér er sömuleiðis verið að gera skattbreytingar þar sem er verið að taka út eitt þrep í skattkerfinu. (Gripið fram í.) Herra trúr, hvað kostar það? Hefur hv. þm. Ásmundur Friðriksson gert sér grein fyrir því? Þær kosta sex og hálfan milljarð. Hverjum nýtast þær best? Mönnum sem eru með 700.000 kr. og yfir það á mánuði. (Gripið fram í.) En þeir sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur að minnsta kosti fram að þessari fjárlagalotu talað um að hann beri sér helst við brjóst, láglaunafólkið, aldraðir og öryrkjar, þeir sem eru með undir 240 þús. kr. á mánuði, þeir fá ekki neitt út úr þessu. Ekki neitt. Það eru menn eins og Ásmundur Friðriksson og ég sem munu, þegar þessar kerfisbreytingar eru komnar í gegn, eftir tvö ár, fá sem svarar á hverjum mánuði 12.000 kr. Þetta er forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Hún stofnar sendiráð fyrir hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Braga Sveinsson, hún stofnar Stjórnstöð ferðamála til hliðar við tvær aðrar stofnanir fyrir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, hæstv. ferðamálaráðherra, og hún stofnar nýtt embætti húsameistara ríkisins fyrir hæstv. forsætisráðherra. En hvað gerir hún fyrir aldraða og öryrkja? Þeir einir hópa eru afsettir, settir til hliðar, og hún kemur í veg fyrir að þeir fái afturvirkar kjarabætur. Það er þá rétt, af því að hv. þm. Ásmundur Friðriksson gerir mér þann heiður að hlýða á mitt mál, að fara aðeins yfir lykilstaðreyndir í því máli.

Hér hafa komið upp hv. þingmenn stjórnarliðsins hver á fætur öðrum og talað um hversu mikið þeir hafi gert á þessu kjörtímabili fyrir aldraða og öryrkja. Hvað er það sem þeir hafa gert? Jú, í fyrsta lagi hafa þeir, þegar allt er reiknað og búið að taka skattana frá, bætt við sem svarar 10.000 kr. Það er staðreyndin. Og í miðju blússandi góðærinu eru aldraðir og öryrkjar, þeir sem eru á strípuðum bótum, þegar búið er að taka tillit til skatta, að lifa á 172 þús. kr. á mánuði. Ef við reiknum svolítið aftur. Ég var að tala um að búið væri að bæta við 10.000 kr. fyrir aldraða og öryrkja en þegar maður tekur tillit til þess að um síðustu áramót tók gildi hér matarskattur getum við dregið 4.000 kr. af þessari hækkun. Eftir standa strípaðar 6.000 kr. sem hefur verið bætt við bætur aldraðra og öryrkja. Þetta er nú það sem þessi ríkisstjórn er að gera fyrir aldraða og öryrkja.

Ekki hefði ég komið hingað til að halda þessa messu yfir hv. þingmanni nema vegna þess að afmælisbarn dagsins talaði um að þessi ríkisstjórn hefði haft aðra og betri forgangsröð en sú síðasta. Ég tel að hv. þingmenn stjórnarliðsins eigi að tala varlega þegar þeir tala um það að síðasta ríkisstjórn hafi farið með ofsa og eldi gegn sérstökum þjóðfélagshópum eða skorið niður eins og af einhverri meinfýsni. Við stóðum einfaldlega frammi fyrir stöðu sem ekki var hægt að ráða bót á með öðrum hætti en við gerðum. Núna er hins vegar annað uppi. Nú er það sem hæstv. fjármálaráðherra kallar góðæri. Það er alveg rétt. Hæstv. fjármálaráðherra naut þeirrar gæfu að taka við ríkissjóði sem búið var að koma í þokkalegt lag. Staðan er einfaldlega þannig að þegar hann tók við ríkissjóði hafði hagur hans batnað verulega ár frá ári um þriggja ára skeið. En nú hefur hæstv. fjármálaráðherra verið hér allsráðandi í ríkisfjármálum um þriggja ára skeið líka og þá blasir hvað við? Menn hjakka í sama farinu. Það er ekki verið að greiða niður skuldir ríkisins hvað nafnverð varðar, (ÁsF: Jú.) nei, það er ekki verið að því. (ÁsF: Jú.) Það er ekki verið að því. Það er enginn afgangur sem hefur verið nýttur til þess. Það kemur mörgum sinnum fram í nefndaráliti meiri hlutans, sömuleiðis í þeirri þjóðhagsáætlun sem hæstv. ráðherra lagði fram á síðasta ári og við rökræddum hér töluverðan tíma, að ekki er gert ráð fyrir að það verði nein lækkun á skuldum ríkisins vegna þess að ríkissjóður leggi fram eitthvert framlag til þess, ekki fyrr en árið 2019. Það er einfaldlega þannig. Svo fremi sem ég kunni að lesa þann texta sem hæstv. ráðherra hefur nú getað sett fram á næsta skýru máli.

Ég ætla ekki að ræða mikið um Landspítalann, herra forseti. Deilurnar hérna hafa staðið um þrennt. Um aldraða og öryrkja og hvort þeir eigi að fá afturvirkar bætur. Þeir eiga ekki að fá þær. Sömuleiðis um hvort Landspítalinn eigi að fá það sem hann þarf og það hafa verið færð skýr rök fyrir því að til þess að hann haldi í horfinu frá síðasta ári þurfi hann 2,9 milljarða. Nú, það má gefa ríkisstjórninni plús fyrir að hún hefur þó fallist á að kreista út 1,2 milljarða til viðbótar. Og síðan er það RÚV. Hv. þm. og forustumaður í niðurskurðarhópi ríkisstjórnarinnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, ásamt hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, hafa gert það að sérstöku dagskrármálefni sínu að taka hæstv. menntamálaráðherra og hengja hann eins og blautt handklæði á snúruna. Það hefur þeim tekist. Hins vegar verður það að segjast að jafnaðargeð hæstv. menntamálaráðherra er með ólíkindum. Hann kemur hér í hverja ræðuna á fætur annarri, lýstur upp höndum og talar eins og það sé sérstakt fagnaðarefni að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hefur tekist ætlunarverk sitt í því. Þetta er því miður efni í aðra ræðu, herra forseti. Ég hef ekki nema örfáar sekúndur til að fara í þetta, en hæstv. menntamálaráðherra hefur alla mína samúð og allan minn stuðning í baráttunni við tröllin. En hitt verð ég að segja (Forseti hringir.) að forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar er öll á einn veg. Hún er með þeim sem hafa nóg að bíta og brenna en því miður eru það hinir sem verða afgangsstærð.