145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég á náttúrulega ekki von á því að eftir þessi orðaskipti okkar verði ég beðinn um að halda ræðu í afmæli hv. þingmanns og þá verður svo að vera. Ég hafði heldur gert ráð fyrir að vera annars staðar.

En það er mjög merkilegt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skuli ekkert muna. Það eru einungis tvö eða þrjú ár liðin frá þessari atburðarás og hann heldur því fram að aðildarumsóknin að ESB hafi ekki gert í blóðið sitt efnahagslega, burt séð frá því sem ég nefndi sem ég tel vera stærsta ávinninginn, að okkur hafi tekist að bægja frá þeirri árás sem yfirvofandi var þá gagnvart viðskiptahagsmunum Íslands. Þá ætla ég að minna hv. þingmann á það sem var eitt mesta bitbeinið undir lok síðasta kjörtímabils. Það voru IPA-styrkirnir. Ég ætla að minna hv. þingmann á að þeir voru í boði upp á 6,5 milljarða. Aðildarumsóknin leiddi til þess að inn í landið hefðu komið í erlendum gjaldeyri, sem þá var töluvert eftirsóttur, 6,5 milljarðar sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir með frægum hætti kallaði glópagull (Gripið fram í.) og dró langan slóða gagnvart Ríkisútvarpinu sem er að enda hér í dag.

Herra forseti. Þetta þýðir í reynd ef menn ætla að leggja það á þennan kvarða að umsóknin kostaði 1.000 milljónir, eins og hv. þingmaður sagði áðan, en á móti komu í styrki 6,5 milljarðar. Fyrir nú utan það sem ég veit að enginn þekkir betur en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, að umsóknarstatusinn gerði að verkum að okkur tókst að hrinda frá þeirri atlögu sem átti að veita okkur, bylmingshöggið sem átti að greiða okkur með því að setja á okkur viðskiptabann. Það veit ég að hún þekkir öðrum betur. (Gripið fram í: Icesave.)